Keldnaland – undirsíða

Betri samgöngur er eigandi Keldnalands og rennur ágóðinn af þróun þess til fjárfestinga fyrirtækisins. Keldnaland er 116 hektara landssvæði og er markmiðið að þar rísi spennandi nútímahverfi með blandaðri byggð íbúða og starfa, sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi. Borgarlína mun ganga eftir landinu endilöngu og verða þrjár stöðvar á Keldnalandi.

 

Metnaðarfull samkeppni um þróun
Undirbúningsrannsóknir fyrir þróun byggðar á Keldnalandi hófust haustið 2021 og Reykjavíkurborg og Betri samgöngur efndu árið 2023 til alþjóðlegrar samkeppni sem er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi. Tilgangur samkeppninnar var að leita eftir vönduðum tillögum og teymi til að koma að þeirri vinnu sem framundan er við hönnun og skipulag hverfisins. Fjölþjóðleg dómnefnd samkeppninnar fór yfir þær 36 tillögur, sem bárust í fyrra þrep og valdi fimm tillögur áfram í seinna þrep. Samkeppnin var nafnlaus á báðum þrepum og var dómnefnd ókunnugt um hvaða teymi stóðu að hverri tillögu við mat og stigagjöf tillagnanna. Heildarstigafjöldi, sem byggði á mati á 14 viðfangsefnum, réði úrslitum.

 

Niðurstöður samkeppni voru kynntar í lok september 2023 og fékk tillagan Crafting Keldur hæstu einkunn en tvær aðrar tillögur fengu viðurkenningu. Að baki vinningstillögunni er sænska arkitektastofan FOJAB og var verkfræðistofan Ramboll í ráðgjafahlutverki. Tillagan gerir ráð fyrir byggð fyrir tæplega 12 þús. íbúa og 8 þús. störf. Keldnaland verður borgarhluti með alla kosti þéttrar og lifandi borgarbyggðar fyrir íbúa og gesti. „Tillagan er byggð á reglubundinni notkun byggðarreita meðfram sannfærandi og raunhæfri leið fyrir Borgarlínu, með vel staðsettum stöðvum og hverfiskjörnum. Með þessu nýtist landið vel og dreifing þéttleikans er sveigjanleg en leiðir eru jafnframt greiðar gegnum byggðina,“ segir í dómnefndaráliti um vinningstillöguna en þar er einnig minnst á að í tillögunni sé sett fram ítarlegt og ígrundað net leiða fyrir alla ferðamáta, sem rími vel við blöndun byggðar og staðsetningu þjónustu.

 

 

Skipulagsgerð og frekari hönnun

Reykjavíkurborg og Betri samgöngur eru að hefja næsta áfanga við þróun svæðisins á grundvelli vinningstillögunnar. Á næstunni hefst formleg tillögugerð í samráði við hagsmunaaðila, íbúa og ráðgjafa við frekari þróun fyrirliggjandi hugmynda, vinnslu rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur fyrir svæðið og mótun deiliskipulags fyrir fyrstu hluta uppbyggingarinnar. Stefnt er að því að fyrstu skipulagsáætlanir fyrir svæðið verði staðfestar árið 2026 og í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar 2024-2033 er gert ráð fyrir að úthlutun byggingarhæfra lóða fyrir íbúðarhúsnæði á Keldnalandi hefjist árið 2028. Skipulagningu og uppbyggingu verður skipt í minni áfanga og ljóst að svo stórt og fjölmennt hverfi verður í uppbyggingu langt fram á næsta áratug.