Umferðarstýring, -öryggi og -flæði

hjola_og_gongustigar_a-4

Umferðarstýring, -öryggi og -flæði

Í framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans er gert ráð fyrir fjármagni í sameiginlegan útgjaldalið umferðarstýring, aukið umferðarflæði og öryggisaðgerðir. Fjármagn þessa liðar er nýtt í ljósastýringar, smærri framkvæmdir á stofnvegum til að bæta flæði og öryggi og smærri framkvæmdir vegna almenningssamgangna.

Yfir tvö hundruð umferðarljós eru á höfuðborgarsvæðinu. Alls eru ljósastýringar á tæplega 90 gatnamótum og gönguþverunum í sameign Vegagerðarinnar og viðkomandi sveitarfélags þar sem þjóðvegur og sveitarfélagsgata eða gönguleið mætast. Betri samgöngum er ætlað að fjárfesta í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar. Nánari upplýsingar um umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu má finna hér.

Samstarfshópur Vegagerðarinnar og SSH lagði í apríl 2021 fram aðgerðaáætlun í ljósastýringarmálum á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli ítarlegrar úttektar erlendra sérfræðinga. Niðurstöður úttektarinnar má finna hér.

Einnig hefur verið unnið að því að setja skýr markmið í rekstri og þróun ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2021 var gerð úttekt á öllum umferðarljósum höfuðborgarsvæðisins með tilliti til ástands og aldurs. Fyrir liggur yfirlit yfir hvar helst er þörf á að endurnýja ljós eða annan tæknibúnað ásamt greiningu á því við hvaða ljós verða helst tafir á annatímum.

Í kjölfarið hefur verið, og er áfram, unnið að ítarlegri ástandsgreiningu og uppfærslu stýringa á hverjum stað fyrir sig með það að markmiði að tryggja umferðaröryggi, lágmarka mengun og bæta flæði. Stöðugt er unnið að endurnýjun tækjabúnaðar til að nýta nýja tækni og auka möguleika á sem bestri virkni á hverjum tíma. Vegna kærumála við útboð á umferðarljósabúnaði hefur gengið mun hægar en vonir stóðu til að endurnýja og bæta umferðarljósabúnað á svæðinu.

Nokkrum smærri verkefnum til að bæta flæði, öryggi og almenningssamgöngur á stofnvegum er lokið. Áfram er unnið að undirbúningi og framkvæmdum af þessu tagi á hverju ári.

Umferðarljósastýring

Örugg umferðarljósastýring skiptir sköpum og er forsenda þess að íbúar komist leiðar sinnar, hvort sem þau notast við einkabíl, almenningssamgöngur, hjól eða ganga.  Á höfuðborgarsvæðinu eru rúmlega 200 ljósastýrð gatnamót og gönguþveranir. Um 90 þeirra eru á götum Reykjavíkurborgar, um 15 á götum Kópavogs og í sjö tilfellum á gatnamótum þar sem tveir þjóðvegir Vegagerðarinnar mætast. Á götum í eigu og umsjón hinna sveitarfélaganna eru í heildina um tíu umferðarljós.

Stór hluti umferðarljósastýringa er þar sem götur með mismunandi veghaldara mætast. Alls eru ljósastýringar á tæplega 90 gatnamótum og gönguþverunum í sameign Vegagerðarinnar og  viðkomandi sveitarfélags þar sem  þjóðvegur og sveitarfélagsgata eða gönguleið mætast. Virkt samstarf um umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu, þróun og viðhald þeirra er því lykilatriði. Með tilkomu Samgöngusáttmála var stofnaður samstarfshópur Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu en þessir aðilar deila ábyrgð á umferðarljósunum.

Spurt og svarað

Hver eiga og bera ábyrgð á umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu?

Vegagerðin og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu deila ábyrgð á umferðarljósum og umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem höfuðborgarsvæðið er skilgreint sem eitt samgöngusvæði er stýring umferðarljósanna samvinnuverkefni allra þessara aðila. Umferðarljós innan marka hvers sveitarfélags eru í eign þess en umferðarljós á stofnvegum eru í eigu Vegagerðarinnar. Þá er stór hluti umferðarljósa í sameign sveitarfélags og Vegagerðarinnar en það er í þeim tilfellum sem stofnvegur og gata í eigu sveitarfélags mætast.

Til hvers er umferðarljósastýring?

Í grunninn er tilgangur umferðaljósa að tryggja flæði í umferð á gatnamótum þar sem ökutæki, gangandi og hjólandi vegfarendur mætast. Umferðaljósin stýra umferðinni á gatnamótum og gera farþegum sem koma úr ólíkum áttum kleift að komast leiðar sinnar á sem bestan hátt, m.a. með það að markmiði að:

  • tryggja að öll komist leiðar sinnar
  • bæta flæði umferðar til að draga úr umferðarteppu
  • stytta ferðatíma vegfarenda
  • auka öryggi í umferðinni
  • tryggja viðbragðsaðilum og almenningssamgöngum forgang á helstu leiðum

Er öllum ljósum stýrt miðlægt? 

Rúmlega helmingi allra umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu er í dag stýrt í gegnum miðlæga stýritölvu umferðarljósa. Stýritölvan tekur við umferðarupplýsingum frá viðkomandi gatnamótum í rauntíma og leitast við að aðlaga stýringar á hverjum gatnamótum og umferðarmagni hverju sinni. Áformað er að á næstu árum muni öll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu verða tengd miðlægri stýringu. Jafnframt er stjórnkassi við hver umferðarljós sem er eins og útibú frá stýritölvunni. Hann hefur það hlutverk að liðka fyrir stýringunni auk þess að gera umferðarljósastýringunni kleift að virka áfram ef tenging myndi rofna við miðlæga stýritölvu umferðarljósa.

Hvernig er umferðarljósunum stýrt?  

Flest umferðarljós eru umferðarstýrð og stjórnað með skynjara en einnig eru sum ljós forstillt og þá breytist tímalengd grænu, gulu og rauðu ljósanna ekki eftir umferðarmagni. Umferðarljós á helstu svæðum eru samræmd með tímaáætlunum sem eru hannaðar til þess að skapa sem minnstar tafir og tryggja öryggi í umferðinni. Það þýðir ekki að ökumenn lendi á grænu á öllum umferðarljósum, heldur eru stýringarnar til þess að minnka tafir á svæðinu í heild sinni.

Á umferðarstýrðum ljósum er notast við tækni á borð við skynjara, hugbúnað, samskiptanet og gervigreind til að bæta umferðarljósastýringu, ýmist á einstökum gatnamótum eða á tilteknum svæðum. Skynjararnir geta verið á mismunandi formi, t.d. segulspólur í götunni, radarskynjarar eða myndavélar. Stýringu umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu má skipta í þrennt, fortímastillt, hálf-umferðarstýrð og al-umferðarstýrð.

  • Á fortímastilltum umferðarljósum, eins og finna má við gatnamót Nóatúns og Laugavegs eru engir skynjarar til staðar. Það þýðir að tímalengdin á grænu ljósi fyrir mismunandi akstursstefnur og gönguleiðir er fyrirfram skilgreind og breytist ekki eftir umferðarþunga. Hins vegar er í fortímastillingunum gert ráð fyrir að umferð sé mismunandi eftir tíma dags og umferðarljós stillt í samræmi við það. Þannig er stýringin ekki eins t.d. á morgnana þegar umferð er þung og á kvöldin þegar minni umferð er.
  • Á hálf-umferðarstýrðum gatnamótum eins og finna má við Bústaðarveg og Grensásveg er notast við skynjara. Þar logar grænt á aðalstefnu ef umferð mælist ekki á hliðargötum eða ýtt er á gönguhnapp.
  • Á al-umferðarstýrðum gatnamótum, eins og til dæmis við Miklubraut og Kringlumýrabraut, senda skynjarar skilaboð í stjórnkassa sem velur úr fyrirfram hönnuðum tímastillingum það sem hentar best hverju sinni miðað við umferðarmagn úr mismunandi áttum. Með tilkomu gervigreindar gefst nú kostur á því að aðlaga ljósastýringuna enn betur að aðstæðum hverju sinni. Búnaður með þessari tækni verður tekinn í notkun á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum. Jafnframt er hægt að uppfæra hugbúnað á nýlegum umferðarljósum til að nýta þessa nýju tækni.

Sparar umferðarljósastýring tíma í umferðinni?

Já, umferðarljós á helstu svæðum höfuðborgarsvæðisins eru samræmd með tímaáætlunum sem eru hannaðar til að skapa sem minnstar tafir vegfarenda og tryggja öryggi í umferðinni. Stýrikassi og stýritölva tekur við umferðarupplýsingum frá viðkomandi gatnamótum í rauntíma og leitast við að aðlaga stýringar á gatnamótum umferðarmagni úr ólíkum áttum á hverjum tíma.

Hvernig virkar „græna bylgjan“?  

Til þess að tryggja sem best flæði í umferðinni hafa umferðarljós á ákveðnum leiðum verið samstillt til þess að ökumenn geti ekið á jöfnum hraða án þess að lenda á rauðu ljósi. Þetta er alla jafnan kallað græna bylgjan en hún virkar best ef ekið er á leyfilegum hámarkshraða eða rétt undir honum. Nokkrar grænar bylgjur eru skilgreindar á höfuðborgarsvæðinu, t.d. eftir Sæbraut, Bústaðavegi og Hafnarfjarðarvegi.

Sjaldnast er hægt að hafa grænar bylgjur í báðar áttir samtímis vegna legu og staðsetningar gatnamóta og er því reynt að samstilla ljós í ríkjandi aksturstefnu hverju sinni. Umferðarljós á stofnbrautum eru samstillt þannig að umferð eigi sem greiðasta leið í átt að miðborginni og helstu atvinnusvæðum á morgnana en í hina áttina síðdegis og utan annatíma.

Hver er ávinningur góðrar umferðarljósastýringar
fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur? 

Í eðli sínu eru umferðarljós fyrst og fremst til staðar til að tryggja að öll komist leiðar sinnar, sama hvaða samgöngumáta er notast við. Þetta felst til dæmis í að gefa gangandi vegfarendum kost á að fara á öruggan hátt yfir umferðarþunga götu og að vegfarendur hafi nægan tíma til að koma sér yfir.

Í stefnuskjali um umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu verður til framtíðar lögð aukin áhersla að hönnun umferðarljósastýringa geri gangandi og hjólandi hátt undir höfði, t.d. með því að lágmarka biðtíma gangandi og hjólandi eins og unnt er og að þeir fái upplýsingar með niðurtalningu á ljósunum eins og gert er í Lækjargötu í dag. Auk þess að gert sé ráð fyrir hnappaboxi alls staðar þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur fara um til að þeir geti kallað eftir grænu ljósi.

Hvers vegna er biðtími við umferðarljós ekki alltaf sá sami?

Umferðarljós eru mismunandi eftir svæðum og tímum enda er umferðarþungi ekki alltaf sá sami. Tilgangur umferðarljósastýringar er einmitt að bregðast við þessu og lágmarka tafir allra vegfarenda. Biðtími á hliðargötum er yfirleitt lengri en á stofnbrautum, þar sem þær síðarnefndu fá yfirleitt lengri græntíma. Lotulengd umferðarljósa, þar sem ein lota er sá tími sem líður frá því umferðarljós verða rauð þar til þau verða rauð aftur, er þó aldrei lengri en 90 sekúndur og styttri utan annatíma.

Er umferðarljósastýring lausnin við umferðarvanda
höfuðborgarsvæðisins? 

Umferðarljósastýring er fyrst og fremst til að bæta umferðaröryggi og gera vegfarendum kleift að komast leiðar sinnar á sem öruggastan hátt.  Ein og sér mun umferðarljósastýring ekki leysa allan vanda til framtíðar heldur þarf einnig að huga að öðrum lausnum á borð við öflugar almenningssamgöngur, greiða fyrir umferð gangandi og hjólandi sem og að ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinni saman að því að tryggja skilvirka umferð um stofnvegi.

Hafa viðbragðsaðilar forgang á umferðaljósum?  

Sjúkra- og slökkvibílar fá forgang á umferðarljósum á ákveðnum leiðum. Búnaði hefur verið komið fyrir í bílunum sem kallar sjálfkrafa eftir forgangi á umferðarljósum þegar bifreiðarnar aka með kveikt á forgangsljósum. Markmið forgangskerfisins er að tryggja aukið öryggi í neyðarakstri, bæði fyrir þau sem eru í neyðarakstrinum en ekki síður almenna umferð sem neyðaraksturinn snertir hverju sinni.

Er ávinningur af umferðarljósastýringu fyrir notendur strætó? 

Já, allir vegfarendur hafa ávinning af bættu umferðarflæði með skilvirkri umferðarljósastýringu. Auk þess er strætó með forgang sem virkar þannig að tæki í vagninum sendir boð þegar vagn nálgast gatnamót og þá framlengist tíminn sem grænu ljósin loga í akstursstefnu þeirra ef þörf er á. Þetta dregur úr ferðatíma fyrir farþega strætó.

Hvað fólu niðurstöður úttektar SWECO á
umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu í sér?

Árið 2020 var gerð sjálfstæð úttekt á umferðarljósakerfinu og stýringu þess á höfuðborgarsvæðinu en hún var unnin af sænsku verkfræðistofunni SWECO. Í úttektinni fólst greining á núverandi kerfi og rekstri þess, mat á kostum og göllum mismunandi umferðarljósakerfa og verkferla auk þess sem SWECO setti fram tillögur um framtíðarþróun og næstu skref.

Í úttektinni er núverandi kerfi umferðarljósa metið með formlegri aðferðafræði bandarísku vegagerðarinnar og virkni þess borin saman við sambærileg kerfi í fjórum evrópskum borgum: Gautaborg (Svíþjóð), Edinborg (Skotland), Almelo (Holland) og Ghent (Belgíu).

Niðurstöðurnar voru þær að umferðarljósakerfið á höfuðborgarsvæðinu væri almennt á pari við kerfi í viðmiðunarborgunum fjórum. Í nokkrum tilfellum skoraði kerfið á höfuðborgarsvæðinu hærra en í hinum borgunum, t.d. í tæknihlutanum þar sem SWECO leggur til að haldið verði áfram á núverandi braut og byggt á þeim grunni sem er til staðar í frekari tækniþróun. Leggja eigi áherslu á fjárfestingu í mannauði umfram tækni til að nýta sem best þá úrbótamöguleika sem núverandi kerfi og framþróun þess býður upp á. Þannig skili tækni og bætt verklag saman sem mestum ávinningi fyrir vegfarendur.

Hver eru framtíðaráform um frekari þróun á umferðaljósastýringu?

Til framtíðar verður lögð áhersla á að umferðarsljósastýring styðji við öruggar, áreiðanlegar og skilvirkar samgöngur auk þess að styðja við loftslagsmarkmið stjórnvalda. Haldið verður áfram að fjárfesta í mannauði, hugbúnaði og vélbúnaði til að tryggja sem besta stýringu umferðarljósa í þágu allra vegfarenda; akandi, gangandi, hjólandi, almenningssamgöngur, neyðarbíla og atvinnutæki, svo eitthvað sé nefnt. Áfram verður unnið í góðu samráði þvert á sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og í samstarfi við ríkið með áherslu á að efla alla samræmingu.