Ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu 26. september 2019. Ákveðið var að framkvæmdirnar yrðu í höndum fyrirtækis sem yrði stofnað í kringum þær.
Ríkið og sveitarfélögin leggja til þrjá milljarða á ári og fyrirtækinu er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur. Annars vegar með þróun Keldnalandsins, sem ríkið leggur fyrirtækinu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á.
Hinn 29. júní sl. voru lög nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Með þeim fékk fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að stofna fyrirtækið. Betri samgöngur ohf. var stofnað 2. október það ár.