Fréttir

Keldnaland 2021-09-11 060_2 2

36 tillögur bárust um Keldnaland

Þrjátíu og sex tillögur bárust í alþjóðlega þróunarsamkeppni um Keldnaland áður en skilafrestur rann út 19. apríl. Dómnefnd metur nú tillögurnar og velur allt að fimm sem verða þróaðar áfram á öðru þrepi. Betri samgöngur og Reykjavíkurborg standa saman að samkeppninni.

 

Niðurstöður dómnefndarinnar um þær tillögur, sem keppa á öðru þrepi mun liggja fyrir 11. maí. Öðru þrepi lýkur svo með skilum tillagna þann 18. ágúst og má gera ráð fyrir að endanleg niðurstaða um hlutskarpasta teymið liggi fyrir í september.

 

Með samkeppninni er verið að leita að teymi með áhugaverða og raunsæja hugmynd að nýju þéttbyggðu, fjölbreyttu og kolefnishlutlausu hverfi, sem verður vel tengt innan borgarinnar og á höfuðborgarsvæðinu öllu. Á grunni áhugaverðustu hugmyndarinnar verður farið í frekari skipulagsvinnu að samkeppninni lokinni.

 

Nafnleynd hvílir yfir samkeppninni og það mun ekki liggja fyrir hver eru að baki tillögunum 36 fyrr en endanlegar niðurstöður liggja fyrir í september.

 

Nánari upplýsingar um samkeppnina má nálgast hér.