Fréttir

borgarlinan-hamraborg-1000x525

45.000 strætóferðir

Höfuðborgarsvæðið hefur lengi þróast eftir áherslum sem ýta undir bílaumferð með dreifðri byggð og einsleitum íbúðahverfum í stækkandi jaðri. Slíkt umhverfi er mikil áskorun fyrir góðar samgöngur.

Með Borgarlínunni færum við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu upp á nýtt stig með áherslu á skjóta, góða og áreiðanlega þjónustu. Hún ekur að mestu í sérrými með forgangi á gatnamótum, tíðni ferða eykst og ferðatíminn styttist. Það sem er mikilvægast: Hún verður sniðin að þörfum notenda.

 

Margar ferðir

Á hverjum virkum degi eru farnar yfir 45.000 ferðir með almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjöldi ferða er sambærilegur við þann fjölda sem ferðast með bílum á degi hverjum eftir Miklubraut við Klambratún. Um 31% íbúa höfuðborgarsvæðisins notar strætó skv. ferðavenjukönnun Gallup frá 2022 og 14% íbúa á strætókort.

Um 19% íbúa höfuðborgarsvæðisins, eða um 47.000 manns, hafa aðgang að Strætó í innan við 400 m fjarlægð frá heimili með a.m.k 10 mínútna tíðni á álagstímum. Með tilkomu Borgarlínunnar og nýs leiðanets verður hlutfallið 66%. Þeim sem njóta þessarar auknu og öruggu tíðni fjölgar því úr 47.000 íbúum í 160.000 – 200.000 íbúa þegar leiðarkerfinu hefur verið breytt. Með uppbyggingu innviða Borgarlínunnar styttist ferðatími farþega jafnt og þétt.

Þá er einnig ljóst að stór og vaxandi hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins vill ferðast til og frá vinnu með öðrum hætti en í bíl.  Í könnun Maskínu frá 2021 voru rúmlega 50% svarenda sem vildu ferðast með öðrum hætti en í bíl til og frá vinnu.

 

Fyrsta lota Borgarlínu 

Sérrými fyrstu lota Borgarlínunnar munu strax hafa jákvæð áhrif á allar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það tengir meginleiðir um Ártúnshöfða og Kópavog við miðborg Reykjavíkur. Fyrsta lota mun því liggja um megin atvinnu- og þjónustusvæði höfuðborgarsvæðisins  þar sem einna mest umferð er,  og tafir hvað mestar, og mun strax hafa mikil áhrif á allt leiðakerfi almenningsvagna í sveitarfélögunum sex á svæðinu.

 

Grein eftir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna, sem birtist á Visir.is 22. nóvember 2023.