Vegna nálægðar framkvæmdasvæðis við landfyllingar og smíði Fossvogsbrúar við Reykjavíkurflugvöll, þá sérstaklega flugbraut 01/19, hafa samskipti og samráð Isavia Innanlandsflugvalla ehf. og Verkefnastofu Borgarlínu staðið yfir í nokkur ár. Samstarfið hefur falið í sér reglulega fundi þar sem farið var yfir öryggissvæði flugvallarins, færslur lóðamarka og flugvallargirðinga sem og vinnu nærri hindrunarflötum í aðflugs- og brottflugsstefnu flugbrautar 01/19. Einu framkvæmdirnar sem munu rjúfa hindrunarfleti flugvallarins eru þegar brúarstólpar og brúarbitar verða hífðir með 60m háum krana á fljótandi pramma. Samkvæmt áætlun hönnuða munu þessar hífingar standa yfir í samtals níu daga.
Verkefnastofa Borgarlínu og hönnuðir Fossvogsbrúar unnu öryggismat fyrir landfyllingar og brúargerð og því var komið til Isavia Innanlandsflugvalla til frekari úrvinnslu. Í framhaldinu voru þessir aðilar kallaðir til að vinna öryggismat um landfyllinguna og framundan er vinna við sams konar öryggismat vegna byggingar brúarinnar. Öryggismatið er framkvæmt af Isavia Innanlandsflugvöllum en er ávallt háð samþykki Samgöngustofu.
Níu daga rask á tveggja ára tímabili
Hönnuðir Fossvogsbrúar hafa hagað útfærslu sinni þannig að sem minnst þurfi að beita háum tækjakosti þegar brúin verður reist og að með notkun hæðarstýringa á vinnuvélum verði hæðartakmörkun á verktíma tryggð. Einnig lögðu Isavia Innanlandsflugvellir mikla áherslu á að forðast bæri vinnu við landfyllingu með dæluskipi en slík vinna mun að öllum líkindum hafa í för með sér mikla aukningu á fuglalífi við brautarendann. Þessi vinna hefur leitt til þess að einu framkvæmdirnar sem munu rjúfa hindrunarfleti flugvallarins eru þegar brúarstólpar og brúarbitar verða hífðir með 60m háum krana á fljótandi pramma. Samkvæmt áætlun hönnuða munu þessar hífingar standa yfir í níu daga samtals, eða 4 daga sumarið 2026 og 5 daga sumarið 2027 svo fremi sem veðuraðstæður séu hagfelldar.
Til að lágmarka áhrif framkvæmda á starfsemi flugvallarins er gengið út frá því að hífingarnar verði gerðar að nóttu til. Verið er að rýna hvort það samræmist hávaðareglugerð, lögreglusamþykktum og öðrum þáttum. Ljúka þarf þessari skoðun áður en hægt er að klára öryggismat Isavia Innanlandsflugvalla á framkvæmdum við brúarbygginguna og senda til samþykktar Samgöngustofu. Fáist ekki til þess tilskilin leyfi, verður aðgerðin endurmetin af hálfu flugvallarins.
Í útboðsgögnum Betri samgangna til verktaka fyrir byggingu brúarinnar verður gerð krafa um að truflun flugsamgangna verði haldið í algjöru lágmarki.
Ljóst er að framkvæmdir við landfyllingar Reykjavíkur megin rjúfa hindrunarfleti flugbrautarinnar aðeins lítillega en ákveðið hefur verið í samráði við Isavia Innanlandsflugvelli hvernig verktaki skal bera sig að þegar hann sækir um tímabundið leyfi til að rjúfa hindrunarfleti. Stefnt er að sambærilegum ráðstöfunum í seinni hluta framkvæmda.
Báðir aðilar að framkvæmdunum eru vel meðvitaðir um mikilvægi verkefnisins og að það takist sem best að teknu tilliti til öryggismála í lofti, á láði og legi. Því hefur verið lögð áhersla á gott samstarf á milli Betri samgagna og Isavia Innanlandsflugvalla þannig að svo megi verða.
Framkvæmdir við fyrri hluta Öldu – Fossvogsbrú hófust um miðan janúar en hann snýr að landfyllingum og sjóvörnum. Undirbúningur við seinni hlutann, byggingu brúarinnar sjálfrar, er í fullum gangi og stefnt er að því að Betri samgöngur bjóði verkið út á fyrri hluta þessa árs.