Ásthildur Helgadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogs, og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), voru kjörin í stjórn Betri samgangna ohf. á aðalfundi sem fram fór á miðvikudaginn. Fyrir eru í stjórn Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra sem verður áfram stjórnarformaður, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur sem verður varastjórnarformaður, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Úr stjórn fara Gunnar Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ og formaður SSH, og Hildigunnur Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri SSH.
Fjárfest fyrir 3.1 milljarð á árinu 2022
Fram kom í máli Davíðs Þorlákssonar framkvæmdastjóra að fjárfestingar ársins 2022 í verkefnum Samgöngusáttmálans hefðu numið 3,1 milljarði króna. Þar af voru fjárfestingar í stofnvegum 800 milljónir, 1.500 milljónir við hönnun og annan undirbúning Borgarlínunar, 700 milljónir í hjóla- og göngustígum og 200 milljónir í öryggis- og flæðisbætandi aðgerðum. Gera mætti ráð fyrir að fjárfestingar í stofnvegum myndu aukast talsvert í ár þegar framkvæmdir við Arnarnesveg hefjast og undirbúningur heldur áfram á öðrum verkefnum, svo sem gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.
Alls hafa fjárfestingar í verkefnum Samgöngusáttmálans numið 11,1 milljarð frá því að hann tók gildi árið 2019. Þar af eru 5,4 milljarðar í stofnvegum, 2,5 milljarðar í Borgarlínunni, 2,1 milljarðar í hjóla- og göngustígum og 1,1 milljarður í öryggis- og flæðisbætandi aðgerðum. Eignir Betri samgangna numu 21,6 milljörðum króna í árslok, þar af var handbært fé 2,5 milljarðar. Eigið fé var 15 milljarðar og var eiginfjárhlutfall því 70%.
Flýti – og umferðargjöld til skoðunar
Fram kom í skýrslu stjórnar, sem Árna M. Mathiesen flutti, að í mörgum löndum í kringum okkur, m.a. Svíþjóð, Noregi og Bretlandi, hafa flýti- og umferðargjöld verið sett á til að fjármagna fjölbreyttar samgönguframkvæmdir, bæta umhverfi og draga úr umferðartöfum. Hann sagði að mikil vinna hefði verið lög í að skoða kosti þess fyrir höfuðborgarsvæðið og hann hvatti ríkið til að leggja slík gjöld á hér sem fyrst að undangegnu samráði við íbúa og hagsmunaaðila.
Frekari upplýsingar:
Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður.
Steinunn Sigvaldadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Regína Ásvaldsdóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og bæjarstjóri í Mosfellsbæ.
Stjórnarmennirnir Páll Björgvin Guðmundsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir, Árni M. Mathiesen og Ásthildur Helgadóttir og Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri. Eyjólfur Árni Rafnsson er einnig í stjórn.