Framkvæmdir við Borgarlínuna hófust eins og kunnugt er í upphafi árs með gerð landfyllinga fyrir fyrirhugaða Fossvogsbrú. Næsta vor og sumar er áætlað að framkvæmdir hefjist jafnframt við fjóra leggi Borgarlínunnar annars staðar í borginni. Borgarlínan er stórt langtímaverkefni og til að koma í veg fyrir of mikið rask á samgöngum verður verkefnið bútað niður þannig að ekki verður farið í langa kafla í einu en framkvæmdatíminn er áætlaður til ársins 2031. Þetta kemur fram í umfjöllun um Borgarlínuna sem lesa má hér fyrir neðan og birtist í nýjasta tölublaði Sóknarfæra.
Framkvæmdir loks að hefjast
Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa samþykkt aðalskipulagsbreytingar vegna Borgarlínunnar og nokkrar deiliskipulagsáætlanir og segir Þorsteinn R. Hermannsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Betri samgangna, að fleiri deiliskipulagsáætlanir séu í vinnslu. „Þetta gengur vel að okkar mati og við sjáum loksins fram á framkvæmdir.“ Búið er að skrifa undir verksamning um byggingu Fossvogsbrúar og eru framkvæmdir hafnar við landfyllingar þar og er áætlað að byggingin á mannvirkinu sjálfu hefjist næsta vor. „Næsta vor og sumar hefjast samhliða því framkvæmdir við fjóra leggi Borgarlínunnar miðað við áætlun okkar. Þeir eru á Nauthólsvegi, á Laugavegi milli Kringlumýrarbrautar og Katrínartúns, við Hlemm og uppi á Ártúnshöfða. Þannig að það er töluvert mikið af framkvæmdum fram undan.“
Gert á löngum tíma
Miklar framkvæmdir fylgja lagningu Borgarlínunnar og segir Þorsteinn að við undirbúning verkefnisins hafi sérstaklega verið horft á að hluta það niður þannig að raskið hafi sem minnst áhrif á samgöngur og líf fólks á framkvæmdatímanum. „Það verður ekki farið í mjög langa kafla í einu heldur verður reynt að vinna þetta bút fyrir bút til þess að halda öllum hjáleiðum og öllum samgöngum í sem bestu horfi á meðan á framkvæmdum stendur. Þannig er það mikið atriði varðandi undirbúning allrar þessarar framkvæmdar að halda þétt utan um það. Framkvæmdatími fyrstu lotu er líka til ársins 2031 þannig að þetta gerist yfir nokkuð langan tíma. Það er meðal annars til að setja ekki í raun og veru allt í uppnám með raski mjög víða á sama tíma,“ segir Þorsteinn en umferð er þegar mjög þung á vissum svæðum. Þótt lögð sé áhersla á að leysa allar hjáleiðir á framkvæmdatíma mjög vel og reyna þannig að valda sem minnstum töfum á umferð þá verður það í einhverjum tilfellum erfitt og þess vegna er lögð áhersla á að vinna hratt og vel þann hluta framkvæmdarinnar. Þorsteinn segir að þetta sé áhersluatriði í öllum undirbúningi.

Hlutar teknir í gagnið
Ekki verður beðið til ársins 2031 með að taka hluta Borgarlínunnar í gagnið heldur verður til dæmis Fossvogsbrú og kafli á Nauthólsvegi, sem áætlað er að verði tilbúinn árið 2028, strax nýtt fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi. Þannig munu strætisvagnaleiðir breytast strax árið 2028 þegar farið verður að nýta þessa nýju innviði. Sama mun gerast á Laugavegi og við Hlemm en strætisvagnar munu þá geta farið að nýta sér þá búta og stöðvar strax þó að allt verkefnið verði ekki tilbúið. „Það er einn sveigjanleikinn í því að byggja upp svona BRT-kerfi, eða á ensku Bus Rapid Transit, og að vera með strætisvagna en ekki lestarvagna. Þá er hægt að taka þetta í notkun í bútum og ekki þarf að bíða eftir að allt sé tilbúið. Við förum því í raun og veru að sjá ávinning af verkefnunum árið 2028 og fólk fer að finna fyrir því í ferðatíma og áreiðanleika í almenningssamgöngum.“
Miklu meira en bara samgönguverkefni
Misjafnar skoðanir eru á því hvort byggja eigi hverfi með Borgarínuna í huga. Aðspurður segir Þorsteinn að þetta sé svolítið spurning um hænuna og eggið. „Við höfum ekki gert mikið af því á höfuðborgarsvæðinu að skipuleggja hverfi út frá almenningssamgöngum sem fyrsta valkosti eða öflugum samgöngumáta. Við höfum frekar verið að skipuleggja byggð og finna svo út úr almenningssamgöngunum eftir á. Þetta er því frábrugðið því sem við höfum oftast gert áður en er vel þekkt erlendis og hefur tíðkast í áratugi. Við horfum þangað og erum sannfærð um að gott aðgengi að almenningssamgöngum, eins og við höfum verið að huga að til dæmis í Keldnalandi og uppi á Ártúnshöfða og víðar þar sem er verið að skipuleggja með borgarlínuna í huga, verði mjög góður valkostur og hverfin hönnuð með Borgarlínuna í huga þó að aðrir ferðamátar verði líka að sjálfsögðu í boði. Við höfum fulla trú á því að þetta muni ganga vel og virka vel.“

Þorsteinn viðurkennir að það séu alltaf efasemdaraddir. „Við erum tilbúin að endurskoða og ef það kemur í ljós að þessi stóru hverfi, sem verða lengi að byggjast upp, virka ekki þá er hægt að fara yfir málin og breyta til dæmis í áfanga þrjú eða fjögur og uppfæra forsendur miðað við reynsluna á þeim tíma. Samgöngusáttmálinn er til ársins 2040 þannig að það er heilmikill tími til að bregðast við og laga sig að breyttum veruleika og breyttum forsendum.“ Þorsteinn segir mikilvægt að hafa í huga að þetta sé borgarþróunarverkefni og byggðaþróunarverkefni. „Vissulega er verið að byggja upp samgönguinnviði en um leið er verið að bæta mjög aðgengi að samgöngum fyrir stóran hluta fólks og þetta býður upp á möguleika að byggja öðruvísi og byggja þéttar við stöðvar. Þetta er miklu meira en bara samgönguverkefni.“ Þorsteinn segir hann og eiginkona hans eigi bíl sem þau noti fyrst og fremst í frístundum en að þau hjóli í og úr vinnu flesta daga og noti almenningsssamgöngur. Hann segist því vel geta hugsað sér að nota borgarlínuna.
Myndir: Mandaworks.
