Áætlað er að framkvæmdir vegna Borgarlínu hefjist við Nauthólsveg og HR í vor og er verkhönnun á lokastigi. Breytingar voru gerðar á deiliskipulagi HR og nýtt deiliskipulag gert fyrir Borgarlínu um Nauthólsveg. Margvíslegt samráð hefur verið haft við hagaðila og hefur HR, stærsti vinnustaðurinn á svæðinu, fagnað tilkomu Borgarlínu og talið aukningu á umferð hjólandi falla vel að stefnu sinni.
Þar sem fyrsta lota Borgarlínu er 15 kílómetra löng er deiliskipulagi fyrir hana skipt upp í nokkra mismunandi hluta. Bæði vegna þess að sums staðar er Borgarlínan hluti af stærra deiliskipulagi viðkomandi svæðis og einnig til að samræma framgang hönnunar mismunandi hluta lotunnar og framkvæmdatíma. Í skipulagsferlinu eru hagaðilar hvattir til að senda inn athugasemdir og víðtækt samráð er haft á öllum stigum.
Forsvarsmenn HR gerðu á sínum tíma athugasemdir við deiliskipulag svæðisins þegar það var í drögum og sendu kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna breytinganna. Þessar athugasemdir snéru ekki að tilkomu Borgarlínu eða legu hennar. Heldur þvert á móti eins og fram kemur í færslu á vef HR.
Úrskurðarnefnd hafnaði kærunni en athugasemdir HR voru vegna málsmeðferðar í skipulagsferli Reykjavíkurborgar. Að mati háskólans var samráð takmarkað og athugasemdir gerðar við bílastæðamöguleika á framkvæmdatíma, hjólastæði og breytingu á byggingamagni við uppbyggingu á innviðum fyrir Borgarlínu.

Fyrirhugaður er kynningarfundur sem Betri samgöngur og Reykjavíkurborg halda í HR þar sem nemendum og starfsfólki auk annarra hagaðila á svæðinu gefst tækifæri til að kynna sér næstu skref og taka þátt í þróun svæðisins og borgarinnar.
Tengd frétt: https://www.borgarlinan.is/utgefid-efni/frettir/stada-honnunar-skipulags-og-framkvaemda
