Fréttir

Arnarnesvegur nóvember 2025

Breiðholtsbraut lokuð um helgina vegna steypuvinnu

Hluta Breiðholtsbrautar, milli Jaðarsels og Vatnsendahvarfs, verður lokað fyrir allri umferð um helgina á meðan steypuvinna Vegagerðarinnar fer fram við nýja brú yfir Breiðholtsbraut. Þetta er gert til að að tryggja öryggi vegfarenda og starfsmanna. Lokunin verður frá klukkan 1 aðfaranótt laugardagsins 8. nóvember til klukkan 5 aðfaranótt mánudagsins 10. nóvember. Opið verður fyrir neyðarakstur.
 
Að steypuvinnu lokinni þarf hugsanlega að takmarka umferð um Breiðholtsbraut. Nánari tímasetningar verða tilkynntar síðar, en umferð verður stjórnað af starfsmönnum verktaka.
Hámarkshraði um framkvæmdasvæðið hefur verið lækkaður í 30 km/klst. á meðan unnið er við brúna.
 
Mikil slysahætta getur skapast þegar ekið er með of háan farm undir vegbrúna, sem nú er í smíðum yfir Breiðholtsbraut. Þar eru m.a. stálbitar sem hver um sig vegur á annað tonn og ef ökutæki rekst í þá er voðinn vís. Vegagerðin birti í síðustu viku myndband af flutningabíl sem var ekið á hæðarvarnarbúnað við brúna.


 
Þegar umferð verður hleypt undir brúna á ný verða hæðartakmarkanir fyrst um sinn 4 metrar á meðan steypan er að ná styrk. Eftir það verður hámarksfarmhæð 4,2 metrar samkvæmt reglugerð. Afar mikilvægt er að verktakar og flutningsaðilar virði hæðartakmarkanir.
 
Vegfarendur eru beðnir um að sýna tillitssemi og þolinmæði meðan á framkvæmdum stendur.
 
Brúin er hluti af nýjum Arnarnesvegi milli Rjúpnavegar í Kópavogi og Breiðholtsbrautar í Reykjavík. Arnarnesvegur er ein af stofnvegaframkvæmdum Samgöngusáttmálans og fjármögnuð í gegnum hann.
 
Arnarnesvegur nóvember 2025

Breiðholtsbraut – lokunarplan 2
 

Allar helstu upplýsingar um stöðu framkvæmda Samgöngusáttmálans má finna í upplýsingagátt:

Verksjá.is