Fréttir

betri_samgongur_adalfundur_2025_a-4

Eyjólfur Árni Rafnsson nýr stjórnarformaður

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, var kjörinn nýr stjórnarformaður Betri samgangna á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær. Hann tekur við af Ragnhildi Hjaltadóttur, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í innviðaráðuneytinu sem sinnt hefur formennsku síðastliðið ár. Þá var Árni Freyr Stefánsson, skrifstofustjóri samgangna í innviðaráðuneytinu, kjörinn nýr inn í stjórnina en áfram sitja þau Guðrún Ögmundsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir, varaformaður stjórnar, Ásthildur Helgadóttir og Páll Björgvin Guðmundsson. Varamenn eru Guðmundur Axel Hansen og Hildigunnur Hafsteinsdóttir.
 

 
Fjárfest fyrir 6,2 milljarða árið 2024
Aukning varð í fjárfestingum í samgönguinnviðum á árinu og fram kom í máli Davíðs Þorlákssonar, framkvæmdastjóra, að tæpir 3,6 milljarðar króna fóru í stofnvegaframkvæmdir, tæpir 1,2 milljarðar í undirbúning Borgarlínunnar, rúmar 782 milljónir í hjóla- og göngustíga og rúmar 708 milljónir í undirgöng og öryggis- og flæðisbætandi aðgerðir. Alls nema fjárfestingarnar 6226 milljónum króna árið 2024 en voru 3456 milljónir árið 2023.

 

Samkvæmt ársreikningi Betri samgangna voru rekstrargjöld fyrirtækisins rúmar 329 milljónir króna árið 2024 og fjármunatekjur rúmar 216 milljónir. Rekstrarniðurstaðan var því neikvæð um 113 milljónir. Eignir voru 28,3 miljarðar í árslok, samanborið við 25,2 milljarða í lok árs 2023. Hlutafé var óbreytt, 15 milljarðar, þannig að skuldir voru 13,3 milljarðar samanborið við 10,2 milljarða árið áður. Handbært fé var um áramótin 2,2 milljarðar samanborið við 3,1 milljarð á sama tíma árið áður.
 
Umfangsmiklar breytingar á árinu
Mikil tímamót urðu í starfsemi Betri samgangna í fyrra. Lokið var við uppfærslu Samgöngusáttmálans þar sem stærri skref voru tekin við uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu en áður og samningstíminn lengdur til ársins 2040. Umfangsmiklar breytingar voru gerðar á sáttmálanum, stór verkefni voru flutt frá Vegagerðinni til Betri samgangna, verkefnum fjölgaði, kostnaðar- og tímaáætlanir endurmetnar og stjórnskipulag bætt.
 

 
Fram kom í skýrslu stjórnar, sem Ragnhildar Hjaltadóttur fráfarandi stjórnarformaður flutti, að í kjölfar uppfærslu Samgöngusáttmálans var hafist handa við að hrinda í framkvæmd mikilvægum fjárfestingum sem höfðu verið í tímabundinni biðstöðu. Framkvæmdir fyrir Fossvogsbrú voru boðnar út í nóvember og hófst vinna við landfyllingar í upphafi árs. Framkvæmdir við Arnarnesveg milli Kópavogs og Reykjavíkur ganga vel, brýr fyrri gangandi og hjólandi í Elliðaárdal eru langt komnar og fjölmörg Borgarlínuverkefni eru í hönnun og skipulagsferli.

Ragnhildur ítrekaði mikilvægi Samgöngusáttmálans og Betri samgangna. Verkefni sáttmálans verði að hafa pólitískan forgang enda sé hann lykillinn að betri samgöngum og auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu.
 

 

 
Nánari upplýsingar:

Ársreikningur Betri samgangna 2024

Skýrsla stjórnar Betri samgangna 2025