Markmið Borgarlínu er ekki eingöngu að koma á afkastamiklu kerfi almenningssamgangna með hærra þjónustustigi heldur er hluti af forsendum verkefnisins að bæta ásýnd göturýma. Lögð er áhersla á grænt yfirbragð þeirra með því að hafa trjágróður í göturýminu sjálfu. Betri samgöngur gerðu markaðskönnun til að undirbúa innkaup á trjám fyrir 1. lotu Borgarlínu og bárust svör frá fimm áhugasömum fyrirtækjum.
Áætlað er að um 1700 tré þurfi fyrir fyrstu lotu Borgarlínu sem er um 15 kílómetra löng og nær frá Ártúnshöfða, um Suðurlandsbraut, miðborgina, Nauthólsveg og að Hamraborg.
Götusniðin verða ólík eftir svæðum en ákjósanlegt götusnið er samkvæmt myndinni hér fyrir neðan og er notað þar sem pláss leyfir. Þar sem rými er takmarkað eru hins vegar notaðar aðrar útfærslur sem sniðnar eru að rýminu á hverjum stað í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og veghöldurum.

Þessi fimm fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að útvega Borgarlínutré:
- Gróðrastöðin Mörk
- Gróðrastöðin í Kjarri
- Garðaþjónusta Sigurjóns
- Van den Berk Nurseries
- Gróðrastöðin Storð
Framundan er að fara yfir svörin og til greina kemur að bjóða áhugasömum til fundar til að ræða verkefnið frekar. Ferlinu er ætlað gefa betri yfirsýn yfir markaðinn og veita upplýsingar um hvernig er best að haga útboðinu sem ráðgert er að auglýsa á fyrri hluta þessa árs.

Áætlað er að fyrsta lota Borgarlínu verði í framkvæmd á árunum 2026-2031.
