Framkvæmdir við Arnarnesveg, sem hófust fyrir rúmu ári, ganga vel og í sumar var klárað að vinna grunnvinnu við nýja akbraut Breiðholtsbrautar og setja niður ný undirgöng austan Jafnasels. Í þessum 3. áfanga framkvæmda við Arnarnesveg er einnig verið að breikka Breiðsholtsbraut frá Jaðarseli að Elliðaám og leggja stofnlagnir hitaveitu meðfram Breiðholtsbraut frá Völvufelli að Elliðaám. Gerð göngu- og hjólastíga er einnig innifalin í verkinu sem og bygging nýrrar göngu- og hjólabrúar yfir Elliðaár við Dimmu.
Framkvæmdirnar eru allar hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Þá hefur einnig verið unnið við fyllingar undir Arnarnesveg í Elliðaárdal, klapparskeringar í vegstæði Arnarnesvegar og uppsteypu brúarstöpla brúar yfir Breiðholtsbraut sem og hljóðmanir við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. Veitur hafa nánast klárað lagningu Suðuræðar II ásamt tengingu við Suðuræð I sem er mikilvægur liður í að auka öryggi miðlunar á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Jarðefni notuð í skíðasvæði
Þess má geta að lausum jarðefnum sem falla til vegna framkvæmdanna hefur verið fundin nýr tilgangur. Þeim hefur verið ekið í fyrirhugaðan Vetrargarð Reykjavíkurborgar þar sem þau nýtast við uppbyggingu á nýju skíðasvæði við Jafnasel. Áætlað er að vinnu við fyllingar og landmótun ljúki í október.
Ný undirgöng á lokametrunum
Bílaumferð var færð í apríl á svokallað framhjáhlaup þar sem unnið er við gerð nýrra undirganga undir Breiðholtsbraut við Völvufell. Gert er ráð fyrir að ljúka byggingu undirganganna og frágangi Breiðholtsbrautar yfir þau í nóvember og þá í kjölfarið fer umferð þar í fyrra horf.
Þá hefst fljótlega vinna við nýja göngubrú yfir Elliðaár við Dimmu en hlé var gert á framkvæmdum í sumar vegna laxveiðitímabilsins. Í vor náðist hins vegar að klára að steypa undirstöður og stöpla fyrir brúna.
Áætluð verklok Arnarnesvegar eru haustið 2026.