Með umferðargjöldum er hægt að fjármagna og flýta mikilvægum og brýnum framkvæmdum fyrir umferð almenningssamgangna, bíla, gangandi og hjólandi á höfuðborgarsvæðinu.
Markmið framkvæmdanna er að stuðla að fjölbreyttari og betri samgöngum og draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar.
Samgöngusáttmálinn
Ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, gerðu árið 2019 með sér sáttmála um sameiginlega framtíðarsýn og uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára.
Með sáttmálanum varð mögulegt að gera átak í bættum samgöngum og flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu sem að óbreyttu kæmu til framkvæmda á næstu 50 árum. Fjárfesta á í innviðum fyrir alla ferðamáta í eftirfarandi hlutföllum:
Stofnvegir 45%
Borgarlínan 42%
Göngu- og hjólastígar 7%
Umferðaröryggi og flæði 6%
Á grundvelli sáttmálans stofnuðu ríkið og sveitarfélögin fyrirtækið Betri samgöngur ohf. sem sér um framgang og fjármögnun verkefna sáttmálans.
Fjármögnun
Samkvæmt samgöngusáttmálanum eiga Betri samgöngur að sjá um þróun og undirbúning uppbyggingar nýs borgarhluta á Keldnalandi. Allur fjárhagslegur ábati af því verkefni rennur til verkefna samgöngusáttmálans.
Þar er einnig kveðið á um að Betri samgöngur eigi að innheimta flýti- og umferðargjöld, verði það ákveðið með lögum. Stefnt er á að þessi gjaldtaka fyrir akstur á milli skilgreindra svæða fjármagni um helming heildarfjárfestingar samgöngusáttmálans. Tekjur af þeim verði að fullu nýttar í samgöngur á höfuðborgarsvæðinu í þágu þeirra sem þar búa og starfa.
Gjaldtaka í samgöngum er að breytast með breyttum orkugjöfum bifreiða og aukinni þekkingu á ytri kostnaði samgangna. Auk undirbúnings flýti- og umferðargjalda vinnur ríkið að heildstæðri endurskoðun á gjaldtöku af ökutækjum og umferð ásamt undirbúningi gjaldtöku til fjármögnunar á stökum samgönguinnviðum.
Flýti- og umferðargjöld
Umferðargjöld byggja á þekktri aðferðarfræði sem reynst hefur vel t.d. sem hluti samgöngusáttmála í stærri borgum Noregs og í Gautaborg og Stokkhólmi í Svíþjóð. Umferðargjöld hafa reynst vel til að til að fjármagna stór samgönguverkefni í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og ná fram markmiðum um betri, vistvænni og fjölbreyttari borgarsamgöngur.
Gjöldin skapa hvata til að nýta gatna- og vegakerfi og aðra samgönguinnviði betur og fjármagna um leið mikilvægar samgönguúrbætur.
Hver eru markmiðin með gjöldunum?
Að draga úr umferðartöfum og bæta umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu á annatímum.
Að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar í formi loft-og hljóðmengunar, umferðartafa og umferðarslysa.
Að stuðla að fjölbreyttari samgönguvalkostum, styðja við breyttar ferðavenjur og hagkvæman vöxt höfuðborgarsvæðisins.
Að flýta framkvæmdum og fjármagna bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Spurt og svarað um flýti- og umferðargjöld
Frumvarp fjármálaráðherra um flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu verður lagt fyrir Alþingi. Tilgangur flýti- og umferðargjalda er að fjármagna og flýta mikilvægum og brýnum framkvæmdum fyrir umferð almenningssamgangna, bíla, gangandi og hjólandi á höfuðborgarsvæðinu.
Hverjir þurfa að borga?
Þeir sem aka vegi og götur á milli skýrt afmarkaðra svæða á höfuðborgarsvæðinu munu þurfa að greiða þessi gjöld. Áhersla yrði á svæði þar sem umferð er mikil og gott aðgengi að öðrum samgönguvalkostum. Það er ekki búið að útfæra endanlega hvernig gjaldtöku yrði háttað en til greina kemur að hafa hámarksgjald á sólarhring fyrir stórnotendur. Allir sem aka um þessi svæði myndu þurfa að greiða gjald að undanþeginni umferð neyðarbifreiða og bifreiða í opinberum almenningssamgöngum. Gjaldið yrði hærra á þeim tímum dags þegar umferð er þyngst, þ.e. að morgni og síðdegis virka daga. Mikilvægt er að útfærsla yrði með þeim hætti að gjöldin leggist ekki um of á tekjulága eða íbúa á tilteknum hlutum höfuðborgarsvæðisins.
Hvert fara peningarnir?
Allt það sem yrði innheimt með þessum aðgerðum færi í að greiða fyrir verkefni í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Með sáttmálanum varð mögulegt að gera átak í bættum samgöngum og flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu til 2034.
Fjárfesta á í innviðum eftir þessum hlutföllum:
Stofnvegir 45%
Borgarlínan 42%
Göngu- og hjólastígar 7%
Umferðaröryggi og flæði 6%
Hvernig tengjast Betri samgöngur þessum gjöldum?
Fyrirtækið Betri samgöngur ohf. var stofnað á grundvelli samgöngusáttmálans sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér árið 2019. Í sáttmálanum kemur fram að ef ákveðið verður með lögum að leggja á flýti- og umferðargjöld er það hlutverk Betri samgangna að innheimta þau.
Hvar þarf ég að borga?
Ekki er búið að ákveða nákvæmlega hvar gjaldtaka yrði. Miðað er við að gjaldtaka yrði á vegum og götum milli skýrt afmarkaðra svæða með áherslu á svæði þar sem umferð er hvað mest og aðrir valkostir í samgöngum, eins og almenningssamgöngur og hjólreiðar, eru hvað bestir.
Hvernig fer greiðslan fram?
Gjaldtakan yrði með sjálfvirkri myndgreiningu, þannig að bílferðir um valdar götur sem tengja afmörkuð, valin svæði verði skráðar með myndavélum sem taka munu myndir af bílnúmerum.
Gjaldtaka yrði aðeins fyrir akstur inn og út af vel afmörkuðum svæðum þar sem hægt verður að sjá til þess að gjöldin muni ekki auka umferð á götum í nágrenninu.
Miðað yrði við að umráðamaður ökutækis greiði einu gjöldin einu sinni í mánuði og öll dulkóðun og vistun upplýsinga yrði í samræmi við lög um persónuvernd.
Á skýringarmyndum að neðan má sjá hvernig skynjarar og myndavélar skrá akstur um sjálfvirka gjaldstöð með myndum af bílnúmerum bæði að framan og aftan.