Fréttir

betri_samgongur_starfsfolk_portret_a_print-2

Fólk er ekki frakt

Öðru hverju kviknar umræða um það hvort rétt væri að gefa frítt í Strætó í stað þess að fjárfesta í almenningssamgöngum, eins og Borgarlínunni. Það er talsvert mikill munur á kostnaði við að reka einkabíl og að nota almenningssamgöngur. Árskort í Strætó kostar aðeins 80.000 krónur, enn minna fyrir börn, ungmenni, aldrað fólk og öryrkja. Félag íslenskra bifreiðaeigenda áætlar rekstarkostnað bíla miðað við mismunandi verðflokka og mismikinn akstur. Rekstrarkostnaður ódýrasta verðflokksins með minnsta akstrinum var áætlaður 1.219.292 krónur árið 2021. Það er rúmlega 15 sinnum meira en árskortið kostar.

 

Fleira skiptir máli

Það blasir því við að kostnaðurinn við að nota almenningssamgöngur er ekki vandamál. Í þessu ljósi er eðlilegt að spurt sé af hverju það nota ekki fleiri almenningssamgöngur. Áður snérust samgöngur fyrst og fremst um kostnað, afkastagetu og hraða. Nútímalegar samgöngur eru hugsaðar út frá þeirri grundvallarhugsun að fólk er ekki frakt. Það eru mun fleiri atriði sem skipta fólk máli þegar það velur samgöngumáta. Ef kostnaður og afkastageta væri það eina sem skipti máli þá myndi enginn nota einkabíl.

 

Eins og Arnór Bragi Elvarsson, samgönguverkfræðingur og doktorsnemi í innviðakerfum, benti á hér í blaðinu 15. apríl síðastliðinn þá eru fyrst og fremst fjórir þættir sem má nota til að meta þjónustugæði ferðamáta: Hvort við komumst (1) áreiðanlega, (2) án biðar, (3) tímanlega og (4) þægilega á áfangastað. Einkabílinn hefur ýmsa kosti framyfir hefðbundin strætisvagnakerfi að þessu leyti og þess vegna er hann vinsæll ferðamáti.

 

Bætum gæði

Við þurfum því að bæta gæði almenningssamgöngukerfisins ef við viljum að fleiri noti það svo að umferðartafir verði minni en ella. Með þessu er ekki verið að segja að við eigum öll að nota sama ferðamátann. Einkabílinn verður áfram vinsælasti ferðamátinn. Þetta snýst um að bæta gæði allra ferðamáta svo fólk hafi raunverulegt og betra val um notkun þeirra. Núverandi strætisvagnakerfi þurfti að taka mið af skipulagi þegar það var mótað. Markmiðið með því var að ná til sem flestra borgarbúa og er slíkt kerfi kallað þekjukerfi. Borgarlínan mun móta skipulag á höfuðborgarsvæðinu þar sem stöðvar hennar verða þar sem byggð er þéttust. Slíkt kerfi kallast hámarksþátttökukerfi. Saman munu því Strætó og Borgarlínan mynda tvö kerfi almenningssamgangna.

 

Fólk tekur á degi hverjum ákvörðun um það hvaða ferðamáti hentar því best í hverri ferð, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Því betri sem ferðamáti er því fleiri nota hann. Með því að tengja helstu kjarna höfuðborgarsvæðisins með Borgarlínunni á sérakreinum og með mikilli tíðni er tryggt að fólk komist áreiðanlega, án biðar, tímanlega og þægilega á áfangastað. Hraðvagnakerfi, eins og Borgarlínan, bæta því gæði almenningssamgangna. Þar sem vandað er til verka í uppbyggingu hraðvagnakerfa hefur náðst góður árangur í að fjölga notendum almenningssamganga. Við fáum það sem við borgum fyrir.

 

Grein eftir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna, sem birtist í Morgunblaðinu.