Fréttir

Skóflustunga Fossvogsbrú

Framkvæmdir hafnar fyrir Fossvogsbrú

Framkvæmdir vegna Fossvogsbrúar, sem er fyrsta stóra verkefnið í tengslum við Borgarlínuna, hófust formlega í dag. Nýr samgönguráðherra, Eyjólfur Ármannsson, tók fyrstu skóflustunguna að framkvæmdinni, ásamt Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, Davíð Þorlákssyni, framkvæmdastjóra Betri samgangna, Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra Reykjavíkur og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, á Kársnesi í Kópavogi.

Verkefnið er hluti af Samgöngusáttmálanum en Vegagerðin verkstýrir því fyrir hönd Betri samgangna sem bera ábyrgð á öllum framkvæmdum sáttmálans.

Eyjólfur Ármannsson, nýr samgönguráðherra, sagði að það væri draumur allra samgönguráðherra að koma á verkstað til að hefja framkvæmdir með skóflu í hönd. Hann vonaði að framkvæmdir myndu ganga fljótt fyrir sig og að hægt yrði að klippa á borðann fyrir opnun Fossvogsbrúar sem allra fyrst.

Um merkileg tímamót er að ræða því verkið markar upphaf framkvæmda vegna byggingar Fossvogsbrúar, sem er fyrsta stóra framkvæmdin í Borgarlínuverkefninu. Brúin verður ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum, auk forgangsaksturs lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs. Hún mun tengja saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavíkur með afgerandi hætti.

Davíð Þorlákssson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, þakkaði Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og Kópavogi kærlega fyrir samstarfið, sem væri rétt að byrja.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar,minnti á að aðdragangandinn hefði verið langur. „Fyrstu hugmyndir að brú yfir Fossvog komu fram árið 2013 og margt hefur gerst frá þeim tíma. Þetta er fyrsta framkvæmdin í Borgarlínu og markar vegferð sem við erum búin að undirbúa í langan tíma,“

Tilkoma brúarinnar verður bylting fyrir þau sem kjósa vistvæna samgöngumáta á svæðinu, auk þess að stytta vegalengdir og stuðla að því að draga úr umferðarálagi á vegum. Áætlanir gera ráð fyrir að 10 þúsund manns muni ferðast daglega um Fossvogsbrú.

Áætluð verklok fyrir þennan hluta verksins er 1. nóvember 2026 en áætlað er að Fossvogsbrú verði tilbúin til notkunar um mitt ár 2028.

Heildarkostnaður við landfyllingar, brúarsmíði og frágang er áætlaður 8,3 milljarðar króna.

Sjá einnig:

Framkvæmdir hefjast vegna Fossvogsbrúar á næstu dögum