Fréttir

Dimma_1-minni

Framkvæmdir hafnar við nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu

Framkvæmdir við nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu, sem er hluti Elliðaáa í Víðidal, hófust í febrúar. Nýja brúin verður mikil samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eiga leið um þessa náttúruperlu. Samhliða brúarsmíðinni verða byggðir upp nýir og endurbættir göngu- og hjólastígar sem munu liggja að nýju stígakerfi við Grænugróf í Elliðaárdal og meðfram nýjum Arnarnesvegi. Áformað er að opna brúna á næsta ári.

 

Timburbrú í takt við umhverfið
Brúin verður lágreist 46 metra löng timburbrú, sem er hönnuð með tilliti til staðsetningar hennar yfir Elliðaárnar og mun falla vel inn í landslagið. Tekið er sérstakt tillit til þeirra sem nota Elliðaárdalinn til útivistar og afþreyingar, sem og þeirra sem veiða í ánum og því er aðgengi undir brúna tryggt. Áætlað er að stígagerð að brúarstæðinu og uppsteypa brúarstöpla verði lokið fyrir 1. maí næstkomandi. Þá verður gert hlé á framkvæmdum vegna göngutíma laxa í ánni og verkinu síðan fram haldið eftir 15. október.

 

Brúin er hönnuð fyrir 100 ára líftíma með hæfilegu viðhaldi. Hún verður fær snjóruðningstækjum og þjónustubílum vegna viðhalds. Við brúarsmíðina verður þess gætt að lágmarka allt rask á gróðri og vernda lífríki árinnar svo náttúrulegt ferli truflist ekki um of vegna verkefnisins. Brú yfir Dimmu og göngu- og hjólastígakerfið er hluti af framkvæmdum vegna nýs Arnarnesvegar sem heyra undir Samgöngusáttmálann.

 

Gamla brúin barn síns tíma
Núverandi brú yfir Dimmu er komin til ára sinna. Um er að ræða gamla lagnabrú fyrir vatns- og hitaveitu, en fyrir nokkrum misserum voru smíðaðir nýir rampar sitthvoru megin við brúna til að fólk kæmist um hana. Yfir vetrartímann hefur verið erfitt að fara yfir brúna, ekki síst með vagna, kerrur eða hjól og því tímabært að byggja nýja brú sem stenst nútímakröfur.

Úti og inni arkitektar og Verkís verkfræðistofa hönnuðu brúna í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg. Arkitekt brúarinnar er Baldur Ólafur Svavarsson. Verkið er samstarfsverkefni Betri samgangna, Vegagerðarinnar, Reykjavíkur, Kópavogs, Veitna og Mílu. Verktakar eru Loftorka og Suðurverk. Eftirlit er í höndum VSB.