Kynningarfundur um gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, og útfærslu á Borgarlínunni milli Vogabyggðar og Stekkjarbakka, verður haldinn 29. mars kl. 17:00 í Borgartúni 14, 7. hæð. Framkvæmdirnar eru hluti af Samgöngusáttmálanum og tilgangur þeirra er að efla samgöngur allra ferðamáta, minnka umferðartafir á háannatíma og auka umferðaröryggi.
Á fundinum verður framkvæmdin og áherslur komandi umhverfismats vegna hennar kynntar. Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við matsáætlunina sem birt verður í þessar viku. Betri samgöngur, Reykjavíkurborg og Vegagerðin standa saman að fundinum en auk fulltrúa þeirra verða á fundinum fulltrúar verkfræðistofunnar EFLU sem er ráðgjafi tillagnanna.
Til skoðunar er að vera með vinstri beygju á brú af Reykjanesbraut inn á Bústaðaveg en einnig verður kynnt önnur lausn þar sem brú er sleppt og aðeins leyfð hægri beygja inn og út af Bústaðavegi. Tvær lausnir verða skoðaðar fyrir leið Borgarlínunnar um gatnamótin. Ekki er gert ráð fyrir umferðarljósum á Reykjanesbraut í neinum af þessum tillögum.
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þeir umhverfisþættir sem lagt verður mat á eru fornleifar, jarðmyndanir, hljóðvist, staðbundin loftgæði, loftslag, landslag og sjónrænir þættir, náttúruminjar, samgöngur og umferðaröryggi, útivist, vatnafar og vatnalíf. Í matsáætlun er því lýst hvernig staðið verður að rannsóknum og mati á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Einnig er gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist gildandi skipulagsáætlunum og öðrum opinberum stefnum.
Nánari upplýsingar má nálgast í matsáætluninni.