Fréttir

0426052-Aldaminni

Góður Öldu-gangur í Fossvogi

Alda, brú yfir Fossvog, var til kynningar hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær, 31. janúar. Undirbúningur fyrir útboð er langt kominn en tvö útboð eru í undirbúningi, annars vegar fyrir fyllingar og hins vegar fyrir smíði brúarinnar. Alda er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum, ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog.

 

Útboð í vor og sumar
Áætlað er að fyrsta útboð af tveimur fari fram með vorinu en þá verða fyllingar boðnar út. Útboð á smíði brúarinnar og landmótun er síðan fyrirhugað um mitt sumar. Í síðari útboðinu er meðal annars gert ráð fyrir 900 tonnum af stáli í yfirbyggingu brúarinnar, sem verður í fimm höfum með steyptu brúargólfi. Gert er ráð fyrir að stórar forsmíðaðar einingar verði notaðar í stöpla og yfirbyggingu. Brúin verður 270 m að lengd.

 

Taka þarf sérstakt tillit til starfsemi Reykjavíkurflugvallar í báðum útboðum og þau áhrif sem flugumferð hefur á framkvæmdir við fyllingar og byggingu brúarinnar.

 

Vinna við landfyllingar hefst á Kársnesi
Áætlað er að vinna við landfyllingar hefjist í sumar og að byrjað verði á Kársnesi. Í byrjun næsta árs er svo áætlað að hefja vinnu við brúargerð og landfyllingar Reykjavíkurmegin. Verklok eru áætluð á árinu 2027.

 

Breytir útivistarmöguleikum
Auk þess að vera mikilvæg samgöngutenging breytir brúin útivistarmöguleikum á svæðinu því göngustígurinn austan á brúnni bindur saman fimm kílómetra göngu- og hlaupaleið um Fossvoginn. Þaðan er fallegt útsýni yfir fjölbreytt útivistarsvæði og strandlengju Fossvogs. Af áningarstöðum við göngustíginn á brúnni er einnig ágætt útsýni til vesturs út Skerjafjörð.