Fréttir

betri_samgongur_starfsfolk_portret_a-5

Hágæða almenningssamgöngur

Á síðustu mánuðum hafa birst greinar í fjölmiðlum þar sem lagt er til að farið verði í létt hraðvagnakerfi (e. BRT light) í stað þess hágæða hraðvagnakerfis sem er nú í undirbúningi og er kallað Borgarlínan. Hugmyndir um létt hraðvagnakerfi eru ekki nýjar af nálinni. Þetta er einn af þeim valkostum sem var skoðaður í aðdraganda þess að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015 var sett. Þá var niðurstaðan að létt hraðvagnakerfi myndi ekki ná sama árangri og hágæða hraðvagnakerfi og að samfélagslegur kostnaður yrði mun hærri ef ekki væri farið í hágæða kerfi. 

 

Spara eyrinn, en kasta krónunni

 

Niðurstöður umferðarspáa sem unnar voru í tengslum við svæðisskipulagið sýndu skýrt að það að beina stærstum hluta fjármagns í uppbyggingu stofnvega myndi leiða til tuga prósenta aukningar í vexti bílaumferðar og aukinna tafa. Það er því dýrast fyrir samfélagið hvort sem litið er til beins kostnaðar, tafa, slysa eða lýðheilsu eða útblásturs. Að ná að stoppa línulegan vöxt bílaumferðar er talinn góður árangur í stórum samgönguverkefnum og það að ná að minnka vöxt bílaumferðar er talinn mjög góður árangur.

 

Við mat á gæðum samgöngukerfa er litið til þess hvort við komumst áreiðanlega, án biðar, tímanlega og þægilega á áfangastað og aftur heim. Ljóst er að létt hraðvagnakerfi stendur hágæða hraðvagnakerfi að baki í öllum þessum þáttum og mun því ekki ná sama árangri. Ástæðan fyrir því er að sérakreinar hægra megin í göturými, eins og gert er ráð fyrir í léttu hraðvagnakerfi, eru í raun forgangsakreinar eins og eru til staðar nú þegar á höfuðborgarsvæðinu.  Slíkar forgangakreinar tryggja ekki áreiðanleika á sama hátt og sérrými í miðju, eins og gert er ráð fyrir með Borgarlínunni, því að önnur umferð getur villst inn á forgangsakreinar. Meira er um þveranir annarar umferðar með slakara umferðaröryggi og lélegra aðgengi, ásamt því að erfiðara er að veita kerfinu forgang á gatnamótum. Þetta gerir það að verkum að kerfið verður óáreiðanlegt og getur því ekki flokkast sem hágæða almenningssamgöngukerfi.

 

Samgöngusáttmálinn sló tóninn

 

Þau dæmi sem nefnd hafa verið sem góð dæmi um létt hraðvagnakerfi eru í borgum þar sem nú þegar er til staðar hágæða almenningssamgöngukerfi í formi lesta. Léttu hraðvagnakerfin eru því eingöngu viðbót við kerfi sem fyrir eru. Borgarlínan er hins vegar stefna um að búa til hágæða almenningssamgöngukerfi í fyrsta sinn á Íslandi. Það var niðurstaða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að stefna á hágæða almenningssamgöngur með samþykkt svæðisskipulagsins. Ríkið kom svo að því borði með gerð Samgöngusáttmálans í september 2019. Betri samgöngum ohf. er ætlað að hrinda Samgöngusáttmálanum í framkvæmd og er bundin af honum.  

 

Leitum hagkvæmustu leiða 

 

Hönnunarferli Borgarlínunnar er skammt á veg komið. Hönnunarstigin eru þrjú; frumdrög, forhönnun og verkhönnun. Aðeins liggja fyrir frumdrög að fyrstu lotu af sex. Ljóst er að Borgarlínan mun taka breytingum í þessu ferli. Ekkert hefur komið fram sem sýnir fram á að forsendur hafi breyst sem ættu að leiða til annarrar niðurstöðu varðandi kosti þess að byggja upp hágæða hraðvagnakerfi. Væri það mat Betri samgangna að réttara væri að fara aðrar leiðir, en gert er ráð fyrir í Samgöngusáttmálanum, myndi fyrirtækið leggja það til við hluthafa sína, ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem myndu þurfa að taka endanlega ákvörðun um það. Á öllum stigum munu Betri samgöngur tryggja að leitað verði hagkvæmustu leiða, þó þannig að þeim markmiðum sem að er stefnt sé náð.

 

Grein eftir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf., sem birtist í Morgunblaðinu.