Jarðgöng eru hagkvæmari lausn fyrir Miklubraut en stokkur og mælt er með því að taka þau áfram á forhönnunarstig. Þetta er niðurstaða svokallaðrar frumdragaskýrslu sem er fyrsta stig hönnunar. Skoðað var hvort væri betra að setja Miklubraut í rúmlega 1,8 km langan stokk frá Snorrabraut að Kringlunni eða gera jarðgöng frá Snorrabraut austur fyrir Grensás sem yrðu 2,8 km löng.
Talið er að gerð ganganna tæki 4-5 ár og er áætlaður kostnaður 53,7 milljarðar kr. á verðlagi í nóvember 2023. Arðsemi jarðganga undir Miklubraut er áætluð tæp 9% og ábati yfir 40 ára tímabili er metinn um 48 milljarðar króna.
Verkefnið heyrir undir Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Í vinnu við frumdrög voru til skoðunar þessar tvær lausnir fyrir gatnakerfi Miklubrautar og í báðum tilvikum gert ráð fyrir að vesturendi stokks/jarðganga væri á sama stað eða rétt vestan Snorrabrautar en í austri endar stokkurinn við Kringluna en jarðgöngin við Grensásveg. Fjölmargir kostir voru skoðaðir áður en stokkur og jarðgöng voru valin til nánari greiningar. Í skýrslunni er farið ítarlega fyrir umrædda valkosti og rökstutt af hverju jarðgöng teljast heppilegri en stokkur.
Með jarðgöngum fæst meiri ávinningur í umferðaröryggi og tafir bílaumferðar á framkvæmdatíma eru mun minni en ef stokkur yrði fyrir valinu. Þá er ljóst að mun meira og flóknara rask væri á framkvæmdatíma stokks og aðkoma að húsum sunnan Miklubrautar frá Rauðarárstíg að Stakkahlíð yrði erfið við byggingu hans. Við gerð jarðganga verður nær eingöngu rask á yfirborði við munna þeirra og hliðra þarf til umferð á þeim stöðum. Munnarnir eru ekki nálægt íbúðarhúsum og verður því lítil truflun á aðkomu að þeim.
Í frumdragaskýrslunni er fjallað um upplýsingasöfnun, hönnunarforsendur, jarðtækni, skipulag, veitukerfi, forsendur umferðar, umferð og umferðarreikninga, umferð gangandi og hjólandi, almenningssamgöngur og Borgarlínu.
Gerð er grein fyrir þeim valkostum sem til umfjöllunar eru, tilkomu þeirra, umferðaröryggismati valkosta og áhrifum þeirra á veitukerfi, hljóðvist og loftgæði. Einnig er gerð grein fyrir umferð og raski á framkvæmdatíma, áfangaskiptingu framkvæmda, kostnaðarmati og félagshagfræðilegu greiningu sem unnin var.
Hlekkur á frumdragaskýrslu:
101056-SKY-001-v02_Miklab_i_stokk-Frumdrog