Fréttir

2025-0627 Images with logo KE

Keldnaland – áframhaldandi þróun vinnslutillögu

Í áratugi hafa verið áform um frekari uppbyggingu á Keldnalandi, um 115 hektara landsvæði að Keldum og Keldnaholti, eign sem ríkið lagði til sem hluta fjármögnunar samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga. Ábati af sölu byggingarréttar á Keldnalandi rennur til umfangsmikilla fjárfestinga Betri samgangna á höfuðborgarsvæðinu í stofnvegakerfinu, innviða Borgarlínu og hjóla- og göngustíga auk smærri verkefna.

 

Betri samgöngur og Reykjavíkurborg hafa í sameiningu staðið að undirbúningi skipulags og uppbyggingar Keldnalands síðustu árin. Haldin var alþjóðleg samkeppni árið 2023 um þróunaráætlun fyrir svæðið og síðustu misseri hefur verið unnið áfram að skipulagi og hönnun á grundvelli vinningstillögu keppninnar.

 

Meðal markmiða sem lögð eru til grundvallar við mótun skipulagsins eru að þar rísi vistvæn, fjölbreytt og félagslega sjálfbær borgarhverfi með allt að 5.800 íbúðum, þremur grunnskólum og öflugum atvinnukjörnum sem rúma allt að 7.500 störf. Ljóst er að fyrirhuguð uppbygging þriggja nýrra skólahverfa mun standa lengi og gera má ráð fyrir að meira en áratugur sé í að Keldnaland með yfir 12 þúsund íbúum, samkvæmt þessum drögum, verði fullbyggt. Til samanburðar við önnur hverfi í Reykjavík eru nú um 11 þúsund íbúar í Hlíðum, 12 þúsund í Árbæjarhverfi og um níu þúsund í Grafarholti-Úlfarsárdal.

 

Síðustu vikur voru til kynningar og umsagnar drög að aðalskipulagsbreytingu ásamt drögum að umhverfismati, drögum að þróunaráætlun Keldnalands og öðrum ítarlegum gögnum. Alls bárust 76 umsagnir og athugasemdir við tillögudrögin en umsagnarferlinu lauk fyrir viku. Nú verður farið yfir athugasemdir og ábendingar og tillagan uppfærð og þróuð áfram. Reiknað er með að endanleg og lögformleg aðalskipulagstillaga verði kynnt undir árslok.

 

Með rammahluta aðalskipulags eru stóru línurnar lagðar fyrir svæðið í heild, t.d. hvað varðar útlínur uppbyggingarsvæða og legu Borgarlínu. Deiliskipulagsgerð er ekki hafin og gera má ráð fyrir að heildarsvæðinu verði skipt upp í a.m.k. tíu deiliskipulagsáætlanir. Í deiliskipulagsáætlunum verða settar fram ítarlegri ákvarðanir um einstaka reiti, byggingarmagn, fjölda íbúða og bílastæða o.fl. Gera má ráð fyrir að fyrstu deiliskipulagsáætlanir verði til umsagnar á næsta ári en að deiliskipulagsgerð fyrir Keldnaland í heild sinni standi yfir næsta áratug enda um mjög stórt svæði að ræða.

 

Uppbygging Borgarlínu verður undanfari uppbyggingar á svæðinu. Samkvæmt framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans hefst uppbygging Borgarlínu um Keldnaland og Blikastaðaland árið 2028 og lýkur 2032. Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að úthlutun lóða á svæðinu hefjist árið 2029.

 

Það er ljóst að það er að mörgu að huga við áframhaldandi þróun rammahluta aðalskipulags næstu mánuði og við mótun deiliskipulagsáætlana næstu árin. Tryggja þarf sveigjanleika og svigrúm í skipulaginu til að mæta samfélagsbreytingum, eftirspurn á markaði með íbúðar- og atvinnuhúsnæði og fleiri atriðum.