Hvað er Keldnaland?
Keldnaland er 117 hektara landsvæði í Reykjavík sem lengi hefur staðið til að nýta til uppbyggingar. Keldnaland samanstendur af Keldum við Grafarvog og Keldnaholti við Korpu. Markmið uppbyggingarinnar er að í Keldnalandi rísi spennandi nútímahverfi með blandaðri byggð íbúða og starfa sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi.
Hverfið verður grænt, fjölbreytt og hannað út frá tilkomu Borgarlínu sem mun liggja um landið endilangt og verða þrjár stöðvar í Keldnalandi. Áhersla verður lögð á að þjónusta og atvinnustarfsemi byggist upp við stöðvar Borgarlínunnar.
Samkvæmt vinningstillögu í samkeppni um skipulag Keldnalands er gert ráð fyrir því að á svæðinu verði hátt í 6000 íbúðir og 8000 störf.
Uppbygging nýrra borgarhverfa í Keldnalandi felur í sér tækifæri til að styrkja það samfélag sem er fyrir í aðliggjandi hverfum, meðal annars með auknu framboði verslunar og þjónustu, veitingastaða, afþreyingar og vel hannaðs almenningsrýmis, auk nýrra atvinnutækifæra.
Keldnaland er þróað og byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og er hluti af samgöngusáttmálanum. Allur ábati ríkisins af þróun og sölu Keldnalands mun renna til uppbyggingar samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Alþjóðleg samkeppni um hönnun Keldnalands
Árið 2023 efndu Reykjavíkurborg og Betri samgöngur ohf. til alþjóðlegrar samkeppni um þróun Keldnalands. Tilgangur samkeppninnar var að leita eftir vönduðum tillögum og hæfu teymi til að koma að vinnu við hönnun og skipulag nýs borgarhverfis á Keldum. Fjölþjóðleg dómnefnd samkeppninnar fór yfir þær 36 tillögur sem bárust í fyrra þrep og valdi fimm tillögur áfram í seinna þrep. Vinningstillagan, Crafting Keldur, hlaut langflest stig af þeim fimm tillögum sem komust áfram. Að baki vinningstillögunni er sænska arkitektastofan FOJAB og var danska verkfræðistofan Ramboll í ráðgjafahlutverki.
Keldur og Keldnaholt mynda Keldnaland en tillagan gerir ráð fyrir að þar rísi nýr borgarhluti með þremur hverfum. Lögð verður áhersla á að einfalt sé fyrir íbúa að lifa sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi vegna nálægðar við vistvænar samgöngur, náttúruna, græn svæði, hverfisgarða og torg.
„Tillagan er byggð á reglubundinni notkun byggðarreita meðfram sannfærandi og raunhæfri leið fyrir Borgarlínu, með vel staðsettum stöðvum og hverfiskjörnum. Með þessu nýtist landið vel og dreifing þéttleikans er sveigjanleg en leiðir eru jafnframt greiðar gegnum byggðina,“ segir í dómnefndaráliti um vinningstillöguna. Þar er einnig minnst á að í tillögunni sé sett fram ítarlegt og ígrundað net leiða fyrir allan ferðamáta, sem rími vel við blöndun byggðar og staðsetningu þjónustu.
Metnaðarfull markmið fyrir stækkandi samfélag
Fulltrúar íslenska ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í september 2019 sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu . Á sama tíma var ákveðið að fela sameiginlegu fyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna, Betri samgöngum ohf., að annast þróun og sölu ríkislands áKeldum og að allur ábati skyldi renni til verkefna sáttmálans.
Í framhaldinu afhenti ríkið bæði Keldur og Keldnaholt til Betri samgangna. Markmið Betri samgangna er,í samræmi við ákvæði samgöngusáttmálans, að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu.
Undirbúningsrannsóknir fyrir þróun byggðar á svæðinu hófust haustið 2021 og Reykjavíkurborg og Betri samgöngur efndu árið 2023 til alþjóðlegrar samkeppni um verkefnið. Samkeppnin er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi.
Lögð verður áhersla á að tengja Keldnaland vel við nærliggjandi hverfi til þess að auka enn frekar þjónustu við íbúa sem og aðgang að grænum svæðum.
Stefnt er að því að þjónusta Borgarlínu hefjist samhliða afhendingu á fyrstu 100 íbúðunum. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu milli Keldna og Lækjartorgs er um 20 mínútur.
Næstu skref í þróun og skipulagi Keldnalands