Fréttir

Keldnaland 2020-02-16 010

Keldur og Keldnaholt – vel tengt framtíðarhverfi

Betri samgöngum var falið að annast þróun og sölu ríkislands að Keldum með samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu haustið 2019. Allur ábati ríkisins af þróun og sölu landsins mun renna óskertur til uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í samgöngusáttmálanum var ákveðið að flýta uppbyggingu framtíðarhverfis að Keldum sem og framkvæmdum við Borgarlínu sem fara á um hverfið endilangt. Þjónusta Borgarlínu er ein helsta forsenda þess að hægt sé að umbreyta Keldum og Keldnaholti í þétta og blandaða byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu milli Keldna og Lækjartorgs er um 20 mínútur.

 

Keldnalandið og Keldnaholt er þróað og byggt upp í samvinnu Betri samgangna og Reykjavíkurborgar og hafa undirbúningsrannsóknir og greiningarvinna staðið yfir frá árinu 2021. Fram undan er alþjóðleg tveggja þrepa samkeppni um þróunar- og uppbyggingaráætlun fyrir Keldur og Keldnaholt. Í framhaldinu verður unninn rammahluti Aðalskipulags Reykjavíkur, deiliskipulags- og uppbyggingaráætlanir á grunni verðlaunatillögu í samkeppninni. Svæðið í heild er alls um 115 hektarar og stefnt er að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023.

 

Skipulag og uppbygging svæðisins mun byggja á áherslum samgöngusáttmála, svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulags Reykjavíkur. Auk góðra almenningssamgangna verður lögð áhersla á framúrskarandi göngu- og hjólaleiðir. Lögð verður áhersla á að skipulag verði á forsendum vistvænna og hagkvæmra samgangna. Útgangspunkturinn er að uppbygging svæðisins hafi sem minnst ytri áhrif til aukningar í bílaumferð á aðliggjandi stofn- og tengibrautum og að almenningssamgöngur verði fyrsti kostur í lengri ferðum.

 

Keldur eru fallegt og grænt svæði og verður lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum og sögu svæðisins. Þarna gefst tækifæri við uppbyggingu til að nýta ræktun sem er fyrir á svæðinu og flétta inn í borgarumhverfið svo úr verði grænir borgargarðar. Yfirborðsvatn á að meðhöndla með vistvænum, blágrænum ofanvatnslausnum og stefnt er að því að byggðin hljóti BREEAM vottun sem en það er alþjóðlegur staðall notaður til að bæta, mæla og meta efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni uppbyggingar. Lögð er áhersla á að félagsleg blöndun verði tryggð á svæðinu og að mismunandi íbúðagerðir blandist sem mest saman og höfði til ólíkra samfélags- og aldurshópa.
Nánari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu verkefnisins á vef Reykjavíkurborgar: reykjavik.is/keldur.