Fréttir

Kynningarfundur um stofnvegaframvæmdir Samgöngusáttmálans

Betri samgöngur ohf. og Vegagerðin héldu kynningarfund 6. júlí þar sem farið var yfir þær stofnvegaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Upptöku af fundinum er að finna hér að neðan.

 

Markmið Samgöngusáttmálans er að auka valkosti þegar kemur að samgöngum en aldrei fyrr hefur verið lagt í jafn umfangsmiklar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Uppbygging stofnvegakerfisins er stærsti einstaki þátturinn í sáttmálanum en hann felur einnig í sér uppbyggingu almenningssamgangnakerfisins (Borgarlínan), lagningu göngu- og hjólastíga og verkefni sem snúa að bættu umferðaröryggi og – flæði.

 

Arnarnesvegur eykur öryggi
Á fundinum var sérstök áhersla lögð á kynningu á lokaáfanga Arnarnesvegar sem mun liggja frá gatnamótum Arnarsnesvegar og Rjúpnavegar að Breiðholtsbraut. Arnarnesvegur hefur lengi verið á skipulagi enda er hann ein af forsendum uppbyggingar í efri hverfum Kópavogs. Útfærslan, sem kynnt var á fundinum, er niðurstaða umtalsverðrar greiningarvinnu og samstarfs Vegagerðarinnar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar.

 

Áfanginn mun létta verulega á umferð um Vatnsendaveg en í Kópavogi, austan Reykjanesbrautar, búa hátt í 15.000 manns. Með breytingunni eykst öryggi vegfarenda og ferðatími styttist. Þá mun vegkaflinn bæta viðbragðstíma fyrir neyðaraðila í efri byggðum Kópavogs og Reykjavíkur til muna.

 

Þegar ferðaleiðum fjölgar mun umferð einnig léttast á Reykjanesbraut og mun fullgerður Arnarnesvegur því hafa jákvæð áhrif á flæði umferðar fyrir íbúa Kópavogs, Reykjavíkur, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

 

Upptaka af kynningarfundinum.

 

Dagskrá fundar
Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna, setur fundinn
Bergþóra Þorkellsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, fjallar um stöðu einstaka stofnvegaframkvæmda innan Samgöngusáttmálans.
Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni, kynnir Arnarnesveg
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, ræðir um Arnarnesveg
Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavikurborgar, fjallar um Arnarnesveg og uppbyggingu Vetrargarðsins í nálægð við veginn.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, ræðir mikilvægi greiðra samgangna fyrir viðbragðsaðila.