Fréttir

Arnarnesvegur desember 2024

Mót ára og tíma

Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri skrifar:

Á morgun, gamlársdag, eru fjögur ár síðan ég hitti Árna Mathiesen, þáverandi stjórnarformann nýstofnaðra Betri samgangna, og skrifaði undir ráðningarsamning sem fyrsti starfsmaður fyrirtækisins. Það eru því ekki bara áramót, heldur líka tímamót hjá mér. Á borðinu lá fyrir skýr stefna um hvað við ættum að gera samkvæmt Samgöngusáttmálanum, en mitt hlutverk var að finna út úr því með stjórn hvernig best væri að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd. Allt frá því að finna skrifstofu, kaupa húsgögn, penna, tölvur o.s.frv. upp í það að setja saman öflugt teymi, marka stefnu og gera samninga við samstarfsaðila.

Það getur tekið á taugarnar að vera óþolinmóður að eðlisfari og vinna í jafn miklum langtímaverkefnum og fjárfestingar í samgönguinnviðum eru. Þrjú hönnunarstig og langt skipulagsferli, mat á umhverfisáhrifum svo ekki sé talað um sjálfar framkvæmdirnar. Allt þetta svo gert í samstarfi við fjölmargra opinbera aðila og einkaaðila. Að vinnudegi loknum finnst manni stundum eins og lítið hafi breyst frá morgni. Margt hefði mátt ganga betur og hraðar, en á þessum tímamótum er rétt að líta yfir farinn veg og skoða hvað hefur áorkast og hvað mætti betur fara.
 
Áætlanagerð lykilatriði
Frá upphafi Betri samgangna hefur verið lykilatriði hjá okkur að bæta áætlanagerð og eftirfylgni með áætlunum. Annar starfsmaður fyrirtækisins, Þröstur Guðmundsson, er einmitt sérfræðingur í því. Afraksturinn af vinnu hans og fleiri mátti sjá með uppfærðum sáttmála sl. haust. Ragnhildur Hjaltadóttir leiddi vinnu við uppfærsluna, eins og hún hefur leitt stjórn Betri samgangna af mikilli röggsemi síðastliðið ár. Þar komu fram heildstæðar og áreiðanlegar áætlanir fyrir fjárfestingar Samgöngusáttmálans, unnar með alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði. Vissulega mun eitthvað hækka og annað lækka, það er eðli áætlana. En, það mun ekki eiga sér stað stökkbreyting á þessum áætlunum héðan í frá, ekki nema eitthvað kollvarpist í ytra umhverfinu.
 
Flýti- og umferðargjöld
Þriðji starfsmaður fyrirtækisins, Þorsteinn R. Hermannsson, hefur sinnt fjölmörgum verkefnum, en kannski fyrst og fremst á tekjuhlið sáttmálans. Flýti- og umferðargjöld hafa verið þróuð áfram undir hans stjórn og eru tilbúin í samráð við almenning og aðra hagaðila þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið vill fara í þá vegferð. Slík gjöld eru sanngjarnasta leiðin til að fjármagna fjárfestingu í samgönguinnviðum í borgum. Samkvæmt uppfærðum sáttmála á gjaldtaka þeirra ekki að hefjast fyrr en 2030. Ég held reyndar að það væri jákvætt að gera það fyrr. Þetta er einfaldasta og ódýrasta leiðin til að hafa jákvæð áhrif á umferðina á höfuðborgarsvæðinu.
 
Keldnaland


 
Þorsteinn hefur líka verið nokkurs konar borgarstjóri Keldnalands og hefur í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg haldið utan um skipulagsferli þess. Það verkefni var á algjörum byrjunarreit þegar við tókum við svæðinu. Búið er að klára stærstu þróunarsamkeppni sem haldin hefur verið lengi á Íslandi og sænskir og íslenskir sérfræðingar vinna nú á fullu í skipulagi svæðisins. Gert er ráð fyrir um 12.000 manna byggð og atvinnuhúsnæði sem rúmar um 8.000 störf. Þá er búið að leysa áralanga, ef ekki áratugalanga, óvissu um framtíð Tilraunastöðvarinnar að Keldum í góðri samvinnu og sátt við þá framúrskarandi vísindamenn sem þar starfa. Verðmæti landsins, sem var áætlað 15 milljarðar árið 2019, hefur meira en þrefaldast og er nú metið 50 milljarðar króna. Það gerir skattgreiðendum talsvert auðveldara að greiða fyrir uppbyggingu þeirra umfangsmiklu samgönguinnviða sem sáttmálinn mælir fyrir um.

 
Stofnvegir
Og talandi um stofnvegi, þeir eru auðvitað kjarninn í því sem við eigum að gera. Búið er að fjárfesta fyrir um 9,4 milljarða króna í stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu. Þremur af níu stofnvegaverkefnum er lokið (tvöfaldanir á Vesturlandsvegi, Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi), eitt er í fullum gangi (Arnarnesvegur) og hin fimm hafa verið þróuð áfram. Að frumkvæði Betri samgangna var ákveðið að skoða ekki bara stokk á Miklubraut, heldur líka möguleika á göngum. Í ljós kom að það er hagkvæmasta leiðin. Miklubrautargöng, Sæbrautarstokkur og Garðabæjarstokkur, gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar og lausn á Reykjanesbraut í Hafnarfirði eru framkvæmdir sem munu gjörbreyta höfuðborgarsvæðinu til hins betra.
 
Borgarlínan


 
Hvað með Borgarlínuna? Það eru enn margir sem halda að það sé það eina sem við gerum en því fer fjarri. Fjárfest hefur verið fyrir um 4,7 milljarða í undirbúningi og minni framkvæmdum vegna Borgarlínunnar, sem er um 4% af heildaráætluninni. Fyrsta stóra framkvæmdin, landfyllingar vegna Fossvogsbrúar, hafa verið boðnar út og getur vinna hafist á næstu vikum. Fjögur tilboð bárust sem voru frá því að vera 30% undir áætlun upp í 1% yfir áætlun.
Fossvogsbrú er langþráð samgöngubót sem áætlað er að 10 þúsund manns muni nota daglega.
Borgarlínan er þó ekki bara samgönguverkefni, heldur borgarþróunarverkefni sem mun koma höfuðborgarsvæðinu í fullorðinna borga tölu. Aðgangur að hágæða almenningssamgöngum mun gefa fólki raunverulegan valkost sem léttir á allri umferð.

 
Hjóla- og göngustígar

 
Eitt af markmiðum Samgöngusáttmálans er að efla virka ferðamáta með gerð 100 km af göngu- og hjólastígum. Um 3 milljarðar króna hafa þegar verið settir í hjóla- og göngustíga eða um 20 km. Með tilkomu sáttmálans hófst samstarf ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu stofnhjólanets höfuðborgarsvæðisins. Fyrstu framkvæmdirnar litu dagsins ljós í byrjun árs 2020. Síðan þá hafa verið byggðir um 10 km af stígum ásamt þremur undirgöngum og þremur brúm. Í framkvæmd eru um 9 km af stígum, tvenn undirgöng og tvær brýr. Æ fleiri nota hjól til að komast á milli staða og rannsóknir sýna að enn fleiri myndu vilja gera það. Betri hjólainnviðir munu gera þeim það kleift.

 
Öryggi og flæði
Fjárfest hefur verið fyrir 2,2 milljarða króna í verkefnum sem auka umferðaröryggi og -flæði. Auk smærri framkvæmda á stofnvegum felst þetta líka í fjárfestingu í nýjum umferðarljósabúnaði sem uppfyllir kröfur samtímans. Ljós á 42 gatnamótum og gönguþverunum hafa verið endurnýjuð frá 2019 og 19 eru í undirbúningi. Betri samgöngum er ætlað að fjármagna endurnýjun og umbætur á um 90 ljósastýrðu gatnamótum og gönguþverunum á umferðarmestu vegum á höfuðborgarsvæðinu.
 
Fjárfesting til framtíðar
Samfara uppfærslu sáttmálans í haust var framkvæmd félagshagfræðileg greining á ábata hans. Fjárfestingin, sem er 311 milljarðar króna, mun skila sér í samfélagslegum ábata upp á 1.140 milljarða til 50 ára. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem er sett í sáttmálann munu 3,5 krónur skila sér til baka. Samfara auknum verkefnum með uppfærðum sáttmála hefur fleira öflugt starfsfólk bæst í hópinn á síðustu mánuðum ársins. Það er sannur heiður að fá að leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar og vinna með öllu þessu úrvals fagfólki hjá Betri samgöngum, Vegagerðinni, ráðuneytum, sveitarfélögum, ráðgjafastofum og víðar, að þessum gríðarlega mikilvægu verkefnum. Fjárfesting í fjölbreyttum ferðamátum skilar sér í úrbótum fyrir alla. Öflugar almenningssamgöngur, með Borgarlínunni í fararbroddi, sem og göngu- og hjólastígar eru lykillinn að því að minnka álag í bílaumferð.
 
Gleðilegt ár!