Davíð Þorláksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. Vinnvinn ráðningar og ráðgjöf hafði umsjón með ráðningarferlinu.
Davíð hefur verið forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins frá 2017 en starfaði áður sem yfirlögfræðingur Icelandair Group frá 2009-2017 ásamt því að vera framkvæmdastjóri fasteignafélaganna Lindarvatns frá 2015-2017 og Hljómalindarreits frá 2016-2017. Davíð var yfirlögfræðingur fjárfestingabankans Askar Capital 2007-2009, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands 2005-2007 og samhliða því verkefnastjóri við lagadeild Háskólans í Reykjavik.
Davíð er reglulegur pistlahöfundur í Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu og hefur umtalsverða stjórnarreynslu, er í dag formaður stjórnar hjá bæði VIRK starfsendurhæfingarsjóði og Ungum frumkvöðlum. Hann var formaður stýrihóps mennta- og menningarmálaráðherra um máltækni fyrir íslensku og sat í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Kanadísk-íslenska viðskiptaráðsins auk þess að hafa setið í ráðgjafanefndum EES og EFTA 2005-2007. Þá var hann formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2011-2013.
Davíð er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og varð héraðsdómslögmaður 2009. Hann er með MBA gráðu frá London Business School og varð löggiltur verðbréfamiðlari 2017.
Betri samgöngur ohf. er opinbert hlutafélag sem stofnað var til að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við samgöngusáttmála sem ríkið sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér.
Fyrirtækið hefur yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun þeirra. Þar með talið mikilvægar stofnvegaframkvæmdir til að tryggja umferðaröryggi, uppbygging almenningssamgangna með Borgarlínu og uppbygging göngu- og hjólastíga. Markmið félagsins er að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.
Auk þess að vinna að auknu umferðaröryggi og stuðla að því að loftslagsmarkmiði um sjálfbært og kolefnislaust borgarsamfélag verði náð. Félaginu er ætlað að tryggja samstarf milli ríkis og sveitarfélaga um skilvirka uppbyggingu samgönguinnviða. Fyrirtækið hefur yfirumsjón með framkvæmdunum og fjármögnun þeirra m.a. með yfirtöku og þróun á landi við Keldur í Reykjavík.