Fréttir

betri_samgongur_starfsfolk_portret_e-2

Þröstur Guðmundsson ráðinn forstöðumaður verkefna og áætlana

Þröstur Guðmundsson verkfræðingur hefur verið ráðinn forstöðumaður verkefna og áætlana hjá Betri samgöngum ohf.

 

Þröstur mun hafa umsjón með áætlunargerð og áhættustýringu, stýra ytri ráðgjöfum sem koma að verk- og kostnaðaráætlunum og tryggja eins og kostur er að áætlanir gangi eftir. Fyrsta verkefni Þrastar verður að vinna að og skilgreina hlutverk og ábyrgð þeirra ólíku aðila sem koma að verkefninu með stjórnendum Betri samgangna. Auk Betri samgangna koma meðal annarra Vegagerðin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að verkefnunum.

 

Þröstur hefur starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi tengdri verkefnastjórnun frá árinu 2016, m.a. fyrir verkefnastofu Borgarlínunnar. Árin 2007-2016 var hann í framkvæmdastjórn hjá HRV Engineering og frá 2000-2011 starfaði hann sem verkefnastjóri hjá Verkís (áður VST). Fyrir það starfaði hann við verkefnastjórnun hjá Alusuisse Technology & Management í Sviss.

 

Þröstur hefur kennt við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík frá 2011, þar af sem aðjunkt frá 2017. Hann er með doktorspróf í verkfræði frá Háskólanum í Nottingham, meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík, meistaragráðu í verkfræði frá University of Colorado og lokapróf í verkfræði frá Háskóla Íslands. Þá er hann einnig vottaður verkefnastjóri (IPMA Level B: Certified Senior Project Manager).

 

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna:
„Það er okkur mikils virði að fá mann með reynslu Þrastar inn í teymið en hann hefur komið að verkefnastjórn fjölmargra stórra framkvæmda hér bæði heima og erlendis. Hann þekkir vel til og hefur mikla reynslu af bæði verkefnastjórn og stjórnsýslu. Verkefni okkar hjá Betri samgöngum er að hrinda í framkvæmd og fjármagna uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu fyrir um 120 milljarða á næstu 15 árum.“