Hönnun nýrra göngu- og hjólabrúa yfir Elliðaár hefur verið kynnt. Meðal annars er um að ræða nýja göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Grænugróf í Víðidal sem fjármögnuð er af Samgöngusáttmálanum. Brýrnar eiga eftir að setja skemmtilegan svip á dalinn og auka notagildi hans.
Brúin verður breið, 6,5 metrar, en á hana setja 10 sentimetra blá rör svip sinn en þau mynda samhverf handrið, sem sveigjast á hliðum brúarinnar. Þarna er vísað í kalda vatnið og vatnsveituna. Brúin tengist inn á stígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Mikið er lagt í lýsingarhönnunina, sem mun setja svip á umhverfið á sama tíma og gætt er vel að því að lýsingin hafi ekki áhrif á lífríki árinnar. Lýsingunni er beint á brúargólfið þar sem nauðsynlegt er að gæta þess að ljós fari ekki út í árnar.
Búist er við því að framkvæmdir fari af stað í haust með undirbúningi. Vetrartíminn er síðan besti framkvæmdatíminn á þessu svæði þar sem það þarf að taka tillit til lífríkis ánna. Búast má því því að framkvæmdir standi yfir fram á næsta ár. Til að stytta framkvæmdatímann og lágmarka rask á staðnum verða brýrnar framleiddar í einingum sem settar verða saman á staðnum.
Á sama tíma er gert er ráð fyrir að fram fari framkvæmdir við enn aðra nýja brú, sem kennd hefur verið við Dimmu, efst í Viðidal, við Breiðholtsbraut. Sú brú kemur í stað veitustokks sem nýttur hefur verið sem göngubrú og hefur lengi verið farartálmi á leið gangandi og hjólandi vegfarenda um dalinn. Bygging hennar er hluti af framkvæmd stíga við nýjan Arnarnesveg sem og hluti Samgöngusáttmálans.
Frekari upplýsingar má nálgast á vef Reykjavíkurborgar.