Fréttir

GPM_2902minni

Nýr samgöngustígur vígður

Nýr samgöngustígur var vígður í Mosfellsbæ í gær. Hann er hluti af hjólastígum Samgöngusáttmálans sem fjármagnaðir eru af Betri samgöngum. Stígurinn liggur í gegnum Ævintýragarðinn frá íþróttasvæðinu við Varmá að nýja hverfinu í Leirvogstungu. Hann er tæplega 1,7 km langur og 5 m breiður. Annars vegar eru tvístefnu hjólareinar og hins vegar hefðbundinn göngustígur. Hluti þessarar framkvæmdar var bygging tveggja nýrra brúa, yfir Varmá og Köldukvísl.

 

Þau Ásgeir Pétur Ásgeirsson og Elísabet Steinunn Andradóttir, sem eru í 4. bekk í Krikaskóla, klipptu á borðana við vígsluna. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sögðu nokkur orð við athöfnina. Tindatríóið söng nokkur lög og að lokinni athöfn hjóluðu nemendur í 4. bekk í Krikaskóla eftir hinum nývígða stíg.