Norðmenn hafa náð eftirtektarverðum árangri í að minnka framúrkeyrslu kostnaðar- og tímaáætlana opinberra framkvæmda og á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands í dag kynnti sérfræðingur norska fjármálaráðuneytisins hvernig það tókst. Mikilvægi vandaðrar verkefnastjórnsýslu við risaframkvæmdir hins opinbera var rædd þar undir yfirskriftinni „Risaverkefni – Stærð skiptir máli“. Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, sagði að breyta þurfi hugarfari og leikreglum þannig að verkefni séu nálguð með faglegum hætti og að pólitísk strategía hafi sem minnst áhrif.
Ingvild Melvær Hanssen sérfræðingur í norska fjármálaráðuneytinu kynnti verkefnastjórnsýslu norska ríkisins fyrir opinberar framkvæmdir og auknar gæðakröfur sem voru innleiddar um aldamót. Samgöngutengd verkefni eru um 30% af heildar verkefnafjárfestingu norska ríkisins og sambærilegt hlutfall fer í varnarmál. Fram kom í máli dr. Ole Jonny Klakegg, prófessors við háskólann í Þrándheimi, að samgönguverkefni séu arðsömustu verkefni hins opinbera í Noregi en hann hefur stundað rannsóknir á þessu sviði síðustu 25 ár.
Öflug verkefnastjórnsýsla mikilvæg
Rannsóknir sýna að opinberar stórframkvæmdir hér á landi fara oft mjög langt fram út áætlunum og efling verkefnastjórnsýslu miðar einmitt að því að vanda undirbúning verkefna með vel skilgreindum verkferlum, bættri áætlanagerð og skilvirkri stjórnun á umfangi verkefna. Fjármálaráðherra tók undir nauðsyn þess en sagði einnig að hluti vandamálsins væri að kostnaður framkvæmda skipti máli í hinu pólitíska ákvörðunartökuferli og að „oft skapaðist hvati til yfirvegaðs vanmats á kostnaði framkvæmda.“ Þannig væri það ekki eingöngu verkefnaskrið sem þyrfti að ná tökum á heldur einnig pólitísk nálgun.
Gagnsæi og þroskuð umræða
Í kjölfar breytinganna sem gerðar voru í Noregi hefur umræðan um opinber verkefni og árangur í verkefnastjórnun breyst mikið. Stór þáttur í þeirri breytingu er til kominn vegna gagnsæis og einfaldleika kerfisins sem komið var á. Allar upplýsingar um árangur verkefna hafa verið aðgengilegar fyrir fræðasamfélagið sem hefur byggt upp öflugan gagnagrunn opinberra verkefna sem skapað hefur tækifæri til margskonar greiningarvinnu og samanburð milli fagsviða og ólíkra verkefna. Þröstur Guðmundsson, forstöðumaður hjá Betri samgöngum, benti á að samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum og fyrirliggjandi gögnum væri ein helsta ástæða þess að verkefni færu úr böndunum væri skrið og breytingar á umfangi verkefna. Hann spurði hvernig umræðan í Noregi hefði þroskast eftir breytingarnar sem gerðar voru á verkefnastjórnsýslunni. Í svari Ingvild Melvær Hanssen kom fram mikilvægi þess að hafa óháða aðila við úttekt verkefna og hið mikla gagnsæi sem var innleitt ásamt greinarvinnu fræðasamfélagsins skipti miklu máli í því samhengi. Þess utan eru verkefni borin saman við samþykktar fjárhagsheimildir frá norska Stórþinginu sem byggja á P85 áætlunum (85% líkur á að verkefni kosti minna en samþykkt heimild) en ekki fyrstu drög áætlana á óþroskuðum verkefnum eins og oft hefur átt sér stað hér á landi.
Viljayfirlýsing undirrituð
Fjármálaráðherra og formaður Verkfræðingafélags Íslands skrifuðu undir viljayfirlýsingu um undirbúning samráðsvettvangs vegna opinberra fjárfestinga í lok ráðstefnunnar. Þar er ítrekað mikilvægi samstarfs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags þegar tryggja eigi gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 2018. Með undirbúningi samráðsvettvangs er markmiðið að efla verkefnastjórnsýslu og stjórn framkvæmda þannig að opinberir fjármunir nýtist sem best í þágu samfélagsins. Fjármálaráðuneytið og Verkfræðingafélagið ætla að tilnefna einn fulltrúa hvor sem eiga að klára tillögur um nánari útfærslu á hlutverki og starfsemi samráðsvettvangs vegna opinberra fjárfestinga fyrir 15.maí næstkomandi.