Fréttir

si_utbodsthing_2025_a

Opinber útboð fyrir 264 milljarða fyrirhuguð á árinu

Áætlað er að bjóða út verklegar framkvæmdir fyrir 264,2 milljarða króna á þessu ári fyrir opinbera aðila sem er næstum tvöfalt meira en áform síðasta árs. Þetta kom fram á Útboðsþingi SI og Mannvirkis sem haldið var í gær. Þrír verkkaupar, Landsvirkjun, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir og Nýr Landspítali, standa fyrir um 90% aukningarinnar. Áætluð úboð Betri samgangna á árinu nema um átta milljörðum króna.
 
Fjölmennt var á útboðsþinginu þar sem kynnt voru áform tíu opinberra verkkaupa. Landvirkjun hyggst bjóða út verkefni fyrir 92 milljarða eða ríflega 35% af öllum fyrirhuguðum útboðum þeirra sem tóku þátt í þinginu. Áform FSRE eru að bjóða út framkvæmdir fyrir 50,2 milljarða og NLSH fyrir 42,5 milljarða króna. Aðrir þátttakendur ætla að bjóða út verk fyrir minna en 20 milljarða króna hver. Þeirra á meðal eru Betri samgöngur en áætlað er að bjóða út framkvæmdir fyrir 8,2 milljarða á árinu sem samsvarar um 3% af heildarútboðum opinberra aðila. Aðrir sem kynntu fyrirhugaðar framkvæmdirsem fara í útboð árinu voru Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landsnet, Vegagerðin, Veitur og ISAVIA.
 
Fossvogsbrú og stígagerð
Af framkvæmdum Betri samgangna eru verkefni Borgarlínunnar fyrir 7,2 milljarða lang stærsti liðurinn og snýr að byggingu Fossvogsbrúar og tengivega auk vinnu við Nauthólsveg. Þá er einnig gert ráð fyrir útboði á gerð nýrra hjóla- og göngustíga í Kópavogi, Garðabæ og í Hafnarfirði fyrir 1 milljarð króna.
 

 

 

Allar helstu upplýsingar um stöðu framkvæmda Samgöngusáttmálans má finna í nýrri upplýsingagátt:

Verksjá.is