Umferðarstýring, -öryggi og -flæði

hjola_og_gongustigar_a-4

Umferðarstýring, -öryggi og -flæði

Í framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans er gert ráð fyrir fjármagni í sameiginlegan útgjaldalið umferðarstýring, aukið umferðarflæði og öryggisaðgerðir. Fjármagn þessa liðar er nýtt í ljósastýringar, smærri framkvæmdir á stofnvegum til að bæta flæði og öryggi og smærri framkvæmdir vegna almenningssamgangna.

Yfir tvö hundruð umferðarljós eru á höfuðborgarsvæðinu. Alls eru ljósastýringar á tæplega 90 gatnamótum og gönguþverunum í sameign Vegagerðarinnar og viðkomandi sveitarfélags þar sem þjóðvegur og sveitarfélagsgata eða gönguleið mætast. Betri samgöngum er ætlað að fjárfesta í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar. Nánari upplýsingar um umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu má finna hér.

Samstarfshópur Vegagerðarinnar og SSH lagði í apríl 2021 fram aðgerðaáætlun í ljósastýringarmálum á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli ítarlegrar úttektar erlendra sérfræðinga. Niðurstöður úttektarinnar má finna hér.

Einnig hefur verið unnið að því að setja skýr markmið í rekstri og þróun ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2021 var gerð úttekt á öllum umferðarljósum höfuðborgarsvæðisins með tilliti til ástands og aldurs. Fyrir liggur yfirlit yfir hvar helst er þörf á að endurnýja ljós eða annan tæknibúnað ásamt greiningu á því við hvaða ljós verða helst tafir á annatímum.

Í kjölfarið hefur verið, og er áfram, unnið að ítarlegri ástandsgreiningu og uppfærslu stýringa á hverjum stað fyrir sig með það að markmiði að tryggja umferðaröryggi, lágmarka mengun og bæta flæði. Stöðugt er unnið að endurnýjun tækjabúnaðar til að nýta nýja tækni og auka möguleika á sem bestri virkni á hverjum tíma. Vegna kærumála við útboð á umferðarljósabúnaði hefur gengið mun hægar en vonir stóðu til að endurnýja og bæta umferðarljósabúnað á svæðinu.

Nokkrum smærri verkefnum til að bæta flæði, öryggi og almenningssamgöngur á stofnvegum er lokið. Áfram er unnið að undirbúningi og framkvæmdum af þessu tagi á hverju ári.