Fréttir

betri_samgongur_starfsfolk_portret_a-5

Ráðinn framkvæmdastjóri Almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins

Davíð Þorláksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins ohf. en hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf. frá janúar 2021. Þar hefur Davíð leitt uppbyggingu Borgarlínunnar og annarra verkefna sem heyra undir Samgöngusáttmálann. Í fréttatilkynningu segir að Davíð hafi verið valinn úr hópi 23 umsækjenda og muni hefja störf á næstu dögum.
 
Almenningssamgöngur höfuðborgarsvæðisins voru stofnaðar 1. september 2025 og mun félagið taka við umsýslu og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið fer með 33% eignarhlut í félaginu á móti 67% hlut sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með stofnun nýs félags er verið að aðskilja skipulag og þjónustustýringu frá daglegum rekstri vagna. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Markmiðið er að bæta þjónustu, auka sveigjanleika og tryggja skýrari ábyrgð og eftirlit með gæðum.
 
„Hann býr yfir víðtækri þekkingu á umhverfi almenningssamgangna og því er það mikils virði að fá hann til að leiða hið nýja félag og starfsfólk þess í gegnum þær breytingar sem framundan eru, m.a. vegna tilkomu Borgarlínunnar,” segir Örn Guðmundsson, stjórnarformaður Almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins.
 
Davíð er með MBA-gráðu frá London Business School og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Áður var hann forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins frá 2017-2021, yfirlögfræðingur Icelandair Group 2009-2017, yfirlögfræðingur fjárfestingabankans Askar Capital 2007-2009 og lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands 2005-2007.