Fréttir

Sæbrautarstokkur 3D loftmynd

Sæbraut í kílómetra langan stokk frá Miklubraut

Til stendur að setja Sæbraut í stokk á um 1 km löngum kafla frá Miklubraut og norður fyrir gatnamót Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs. Með vegstokki er verið að bæta umhverfisgæði í nærliggjandi byggð og tengja betur saman hverfi sem eru aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum. Sæbrautarstokkur er ein af stofnvegaframkvæmdum Samgöngusáttmálans og vinna Reykjavíkurborg og Vegagerðin ásamt Betri samgöngum nú að undirbúningi verkefnisins. Áætlaður kostnaður er rúmir 25 milljarðar króna.
 
Eins og sést á meðfylgjandi myndum verður til nýr borgargarður á yfirborði stokksins sem myndar græna tengingu milli Vogahverfis og Vogabyggðar. Ný gatnamót við Kleppsmýrarveg/Skeiðarvog verða einnig byggð ofan á norðurhluta stokks með römpum að og frá Sæbraut til norðurs og suðurs. Á yfirborði stokksins verða hjóla- og göngustígar og góð aðstaða fyrir útivist og samveru.
 

 
Með framkvæmdinni er syðsti hluti Sæbrautar lækkaður og settur í vegstokk. Í Sæbrautarstokki er gert ráð fyrir tveimur akreinum í hvora átt auk blöndunarreina og neyðarvasa samkvæmt öryggiskröfum. Lofthæð verður um 6,5 metrar en dýpi á greftri fyrir stokkinn er áætlað um 9,5 metrar.
 

 
Mikilvæg tenging íbúa- og atvinnusvæða
Sæbrautarstokkur er mikilvægur hluti af heildarsýn fyrir stofnvegakerfið og tengingu fyrirhugaðar Sundabrautar við það. Stokkurinn er ein af lykilforsendum fyrir þverun Borgarlínu, aukinni afkastagestu fólksflutninga austur og vestur um höfuðborgarsvæðið og tengingu nýrra uppbyggingarsvæða á Ártúnshöfða, Keldum og Blikastaðalandi við almenningssamgöngukerfið.
 

Helsti ávinningur Sæbrautarstokks:

  • Greiðari samgöngur fyrir akandi og aukið umferðaröryggi og flæði með afnámi gatnamóta við Súðarvog og mislægum gatnamótum við Kleppsmýrarveg.
  • Greiðari samgöngur fyrir gangandi og hjólandi og aukið öryggið með tengingum ofan á stokkinum.
  • Greiðari samgöngur fyrir Borgarlínuna og Strætó með mislægri þverun við Sæbraut á sérakreinum.
  • Bætt hljóðvist og loftgæði yfir langan kafla stofnvegar.
  • Bættar tengingar almenningssamgangna.
  • Aukið rými til uppbyggingar og borgarþróunar sem fjölgar mögulegum notendum vistvænna samgangna.
  • Nýr borgargarður á yfirborði stokksins með gróðri, stígum og aðstöðu til útivistar.

     

    Rauða línan eru sérreinar fyrir Borgarlínu og Strætó með hjóla- og göngustígum meðfram þeim.
     
    Kynning Sæbrautarstokks og samráð framundan
    Stokkurinn um Sæbraut kallar á breytingar á deiliskipulagi aðliggjandi svæða. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulagsgerðar fyrir Sæbrautarstokk og tengdar deiliskipulagsáætlanir.
    Skipulagslýsingin verður auglýst í samræmi við skipulagslög og almenningi, hagsmunaaðilum og stofnunum gefst þá tækifæri til að senda inn athugsasemdir og ábendingar. Þá áætlar Reykjavíkurborg að halda opna kynningarfundi á þessum áætlunum. Stokkurinn er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og stefnt er að því að framkvæmdir við hann hefjist 2027 og verði lokið árið 2030.

     

     

    Allar helstu upplýsingar um stöðu framkvæmda Samgöngusáttmálans má finna í upplýsingagátt:
    Verksjá.is