Það hefur stundum verið sagt að samgöngur og skipulag séu eins og systur. Með undirritun samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu haustið 2019 má því segja að samband systranna hafði orðið nánara og sterkara en áður. Fjárfestingar Betri samgangna ohf. í Borgarlínu, göngu- og hjólastígum og stofnvegum eru ekki bara metnaðarfull samgönguverkefni. Á sama tíma eru þær lykilþáttur í þróun byggðar, umhverfis og lífsgæða á höfuðborgarsvæðinu og munu fjölga valkostum þegar kemur að samgöngum.
Mikill vöxtur
Síðustu ár hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði fjölgað um 90 manns á viku. Með því samgönguskipulagi og ferðavenjum sem við þekkjum í dag má jafnhliða búast við að bílaflotinn á gatnakerfinu stækki um 50 bíla á viku. Svo kemur næsta vika.
Viðfangsefnið er því ekki aðeins staðan eins og hún er í dag. Í kröftugum vexti er viðfangsefnið að skipuleggja hvernig íbúar komast á milli staða með skilvirkum og hagkvæmum hætti og á sama tíma hvar staðsetja á nýjar íbúðir og atvinnuhúsnæði.
Svæðisskipulag 2040 samvinna sveitarfélaganna
Við mótun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 varð ljóst að nær ómögulegt verður að brjóta byggingarland og byggja upp samgöngukerfi fyrir næstu kynslóðir íbúa með sama hætti og á síðustu öld. Sveitarfélögin sameinuðust því um að breyta um kúrs í skipulagi byggðar og samgangna. Í svæðisskipulagi til ársins 2040 eru skýr markmið um aukna sjálfbærni, meiri hagkvæmni og betri nýtingu lands og grunnkerfa samgangna sem m.a. á að ná með áherslu á uppbyggingu innan núverandi þéttbýlis. Að stytta vegalengdir fólks í daglega lífinu.
Samgöngu- og þróunarásar með hágæða almenningssamgöngum, Borgarlínu, og hjólastígum sem tengja sveitarfélögin og helstu uppbyggingasvæði þeirra saman eru hryggjarstykkið í svæðisskipulaginu. Þar eru betri almenningssamgöngur og betri innviðir fyrir hjólandi og gangandi í forgangi og stuðlað að því að sem flestir geti farið ferða sinna með hagkvæmum og vistvænum hætti. Á sama tíma er meginþunga vaxtar og uppbyggingar beint á miðkjarna og samgöngu- og þróunarása innan núverandi byggðar. Hlutfall íbúðabyggðar á þessum áherslusvæðum á samkvæmt svæðisskipulaginu að vaxa úr 30% árið 2012 í 66% árið 2040.
Borgarskipulag tekur mið af samgöngum
Í nýlegri þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið kemur fram að á milli 60-70% af íbúðum og atvinnuhúsnæði sem byggja á næstu fimm árin eru innan áhrifasvæðis fyrirhugaðra hágæða almenningssamgangna. Sveitafélögin eru í samræmi við stefnu svæðisskipulagsins að vinna að hagkvæmum vexti með meiri þéttleika og blöndun byggðar við þessa vistvænu samgönguása en annars staðar.
Þá sést vel í metnaðarfullum uppbyggingaráformum helstu fasteignafélaga landsins að þau eru í góðum takti við þessa þróun og eru að skipuleggja eftirsóknarverð uppbyggingarsvæði. Við fyrstu lotu framkvæmda Borgarlínu eru mörg spennandi þróunarsvæði sem byggjast munu upp á næstu árum t.d. Ártúnshöfði, Elliðaárvogur, Skeifan, Suðurlandsbraut, Kársnes og Hamraborg að ógleymdri miðborginni og Landspítalasvæðinu. Þá eru bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík að vinna spennandi áætlanir um þróun sinna háskólasvæða með Borgarlínuna sem hryggjarstykki til framtíðar.
Erlend borgarsvæði sem eru að vaxa, líkt og höfuðborgarsvæðið eru undantekningalítið að stefna áfram í sambærilega átt, að byggja upp þéttara borgarsamfélag á ásum með skilvirkum, hagkvæmum og vistvænum samgöngum. Með samgöngu- og þróunarásum höfuðborgarsvæðisins er leitast við að lágmarka sóun, að mæta flóknum áskorunum nútímans og framtíðarinnar og búa til fleiri valkosti í byggð og samgöngum fyrir vaxandi íbúafjölda.
Grein eftir Þorstein R. Hermannsson, forstöðumann hjá Betri samgöngum, sem birtist á Vísir.is.