Fréttir

Unknown

Sátt um samgöngur

Þegar innviðafjárfestingar eru skipulagðar er nauðsynlegt að hugsa til langs tíma. Eins árs gildistími fjárlaga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga dugir ekki. Í Noregi hefur verið farin sú leið að opinberir aðilar hafa gert með sér samgöngusáttmála. Fyrsti sáttmálinn var gerður í Björgvin fyrir um 35 árum. Ósló er nú á sínum þriðja sáttmála. Með þeim ná öll, sem þurfa að koma að samgöngumálum, sér saman um framtíðarsýn. Ákveðið er í hverju verði fjárfest og hvenær. Ekki eru teknar u-beygjur eftir kosningar, þótt auðvitað sé nauðsynlegt að endurskoða áætlunina ef aðstæður breytast. Óhætt er að segja að reynslan í Noregi hafi verið góð.

 

Árið 2019 skrifuðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undir sáttmála um samgöngur á svæðinu til 15 ára. Hann er sá fyrsti á Íslandi þannig að það má segja að brotið hafi verið blað í sögu samgöngumála á Íslandi með undirritun hans. Ákveðið var að stofna fyrirtæki um fjárfestingarnar, Betri samgöngur ohf. Ráðgert er að fjárfesta fyrir um 52 milljarða í stofnvegum, 50 milljarða í Borgarlínunni, 8 milljarða í virkum ferðamátum, fyrir gangandi og hjólandi, og 7 milljarða í umferðarstýringu og öryggi. Markmiðin eru greiðari samgöngur og fjölbreyttari ferðamátar, aukið öryggi, minni útblástur, gott samstarf og skilvirk framkvæmd.

 

Fjölgum valkostum

 

Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgar að meðaltali um 90 í hverri viku. Án metnaðarfullra fjárfestinga eins og þessara er fyrirséð að umferðartafir myndu aukast enn meira en ella. Boðið er upp á raunverulegt valfrelsi um samgöngumáta. Kannanir sýna t.d. að mörg vilja gjarnan fara fleiri ferðir hjólandi en þau gera nú. Á sama tíma er ljóst að einkabílinn verður áfram vinsæll ferðamáti og því þarf leið hans að vera greið. Hraðvagnar í sérrými, eins og Borgarlínan, er sú leið sem mörg sambærileg borgarsvæði hafa farið til að stytta ferðatíma með góðum árangri.

 

Við þurfum að lyfta umræðu um samgöngumál upp úr þeim skotgröfum sem hún fellur stundum í, hvort sem það er á milli svæða annars vegar eða mismunandi ferðamáta hins vegar. Samgöngur mynda heildstætt kerfi þar sem fjárfesting fyrir einn ferðamáta léttir álagi af öðrum. Við ættum því að fagna fjárfestingu í öllum ferðamátum, þótt við notum þá e.t.v. ekki alla sjálf. Ríkið og sveitarfélögin eru búin að leggja til áætlun og fjármagn. Nú er það okkar að hrinda þessu í framkvæmd. Ef vel tekst til verður ferðatími sem flestra styttri en ella sem skilar meiri frítíma og bættum lífgæðum.

 

Grein eftir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf., sem birtist í Morgunblaðinu.