Fréttir

IMG_0458

Sífellt fleiri velja hjólið

Þeim fjölgar jafnt og þétt sem nota hjólið sem ferðamáta, þetta sýna hjólateljarar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Þegar fjöldi hjólandi vegfarenda er skoðaður síðastliðin þrjú ár sést að þau eru ansi mörg sem velja að hjóla og fjölgun hefur verið á milli ára, tæplega 1.900.000 manns hjóluðu árið 2022 en árið 2024 náði fjöldinn 2.100.000 manns. Nú stendur yfir átakið Hjólað í vinnuna og í aðsendri grein í Morgunblaðinu segir Katrín Halldórsdóttir, forstöðumaður hjóla- og göngustíga hjá Betri samgöngum að hjólareiðar séu raunhæfur valkostur sem daglegur ferðmáti á höfuðborgarsvæðinu.

 


Grein eftir Katrínu Halldórsdóttur:

 

Hvernig væri að hefja daginn á léttri hreyfingu utandyra og anda að sér fersku lofti, sleppa við allt umferðarstress og mæta fersk til vinnu eða skóla?  Hljómar vel en kannski ekki á Íslandi þar sem veðurfar hér er miklu verra en í nágrannalöndunum.  Rok, rigning og snjór, svo ekki séu nefndar gular, appelsínugular og jafnvel rauðar veðurviðvaranir.  Eða hvað, af hverju hefur hjólandi vegfarendum fjölgað svo mikið á Íslandi síðustu ár ef aðstæður eru svona ómögulegar? 

 

Ein af fjölmörgum mýtum um hjólreiðar er einmitt sú að hjólreiðar séu sport sem er háð árstíð og því ekki hægt að stunda allt árið í kring.  Raunveruleikinn er þó sá að fólk hjólar ef það eru góðir innviðir, og ef þeim er vel við haldið, óháð árstíðum.  Vissulega er veðráttan áskorun, en það er hún fyrir alla ferðamáta, ekki bara hjólreiðar.  Án vetrarþjónustu veganna okkar kæmumst við ekki langt á snjóþungum degi á einkabílnum.  Það sama gildir um hjólreiðar.  Vel viðhaldnir stígar með góðri vetrarþjónustu munu laða að sér hjólreiðafólk, sama hvort við erum stödd hér á landi eða erlendis.

 

Veðurfar ofmetið
Það getur vissulega orðið vindasamt á Íslandi en nýlegar vindmælingar komu á óvart, sem sýndu að það er álíka mikið rok í Reykjavík og í hjólaparadísinni Kaupmannahöfn!  

 

Þróunin hér hefur verið sú að þeim fjölgar jafnt og þétt sem nota hjólið sem ferðamáta. Þetta sýna hjólateljarar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Þegar fjöldi hjólandi vegfarenda er skoðaður síðastliðin þrjú ár sést að þau eru ansi mörg sem velja að hjóla og fjölgun hefur verið á milli ára, tæplega 1.900.000 manns hjóluðu árið 2022  en árið 2024 náði fjöldinn 2.100.000 manns.   

 

 

Þess má geta að teljararnir nema ekki rafmagnshlaupahjól og fjöldi þeirra vegfarenda er því ekki með í þessum gögnum.  Sérstaklega áhugavert er að skoða þróun fjölda hjólandi vegfarenda á veturna.  Sjá má umtalsverða aukningu í fjölda hjólandi í janúar, febrúar og mars sem eru oft á tíðum snjóþungir og kaldir, sjá mynd 1Ekki er ólíklegt að tilkoma rafmagnsreiðhjólsins hafi haft áhrif á þessa þróun.  Einn af mörgum kostum rafmagnsreiðhjóla er að lengri vegalengdir verða viðráðanlegri, veðurfar minni áskorun og hólar og hæðir auðveldari yfirferðar 

 

Góðir innviðir spila veigamikið hlutverk í að fá fleiri til að hjóla og þar skiptir öryggi og aðgengi þennan vegfarendahóp mestu máli.  Við þurfum að byggja upp vel hannað stígakerfi með aðskildum leiðum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og huga vel að þjónustu og viðhaldi.   

 

Höfuðborgarsvæðið er nokkuð vel í stakk búið þegar kemur að hjólreiðum, vegalengdir eru ekki svo langar og nokkuð gott stígakerfi hefur verið byggt upp.  Flestir þessara stíga eru þó sameiginlegir stígar sem gera ráð fyrir að gangandi og hjólandi deili stígnum.   

 

Stórfelld uppbygging stíga
Samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir að byggja upp 100 km af göngu- og hjólastígum.  Þessir stígar munu tilheyra stofnhjólaneti höfuðborgarsvæðisins.  Stofnhjólanetið er lagt upp með aðskildum stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og tengir saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og helstu hverfi innan þeirra.  Markmiðið er að byggja upp heildstætt hjólreiðanet með góðum og öruggum hjólaleiðum sem gerir hjólreiðar að meira aðlaðandi ferðavalkosti.   

 

 

Árið 2020 hófust framkvæmdir á vegum samgöngusáttmálans með uppbyggingu á stofnhjólanetinu og næstu 15 árin verður haldið áfram með þessa uppbyggingu.  Nokkur stór hluti hennar verður á göngu- og hjólastígum með fram Borgarlínunni en þessi tvö mikilvægu útspil, hágæða almenningssamgöngukerfi og góðir innviðir fyrir hjólandi vegfarendur, fara vel saman.  Betri samgöngur standa undir nafni og halda utan um þessi áform og framkvæmdir. 

 

Allir njóta góðs
Allir njóta góðs af auknum hjólreiðum, þær gegna lykilhlutverki í grænni og heilsusamlegri framtíð sem fær sífellt meiri viðurkenningu og athygli í umræðunni í dag.  Þeir sem að hjóla njóta ekki bara góðs af því, heldur allir íbúar og gestir borga og bæja sem taka mið af hjólreiðum.  Umferðaröryggi eykst, loftgæði verða betri og umhverfið verður líflegra og skemmtilegra. Fjölgun hjólandi vegfarenda dregur þar að auki líka úr álaginu í bílaumferðinni.  

 

Maímánuður er fram undan með sínum björtu dögum og vinnustaðir etja kappi við að ná á „topp tíu“ listann í keppninni „hjólað í vinnuna“.  Það er því kominn tími til að dusta rykið af gömlum skrjóðum, smyrja keðjurnar og stilla gírana.  Takk fyrir að hjóla! 

 

Höfundur er forstöðumaður hjóla- og göngustíga hjá Betri samgöngum.