Fréttir

Stígar í Hafnarfirði breytt

Stígaframkvæmdir hafnar við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði

Framkvæmdir eru hafnar við verkefnið Þrír stígar þar sem byggðir verða aðskildir göngu- og hjólastígar vestan við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði og vestan Hafnarfjarðarvegar í Garðabæ og Kópavogi. Vinna við fyrsta hluta verksins hófst á dögunum en hann nær frá gatnamótum Hraunbrúnar og Reykjavíkurvegar í Hafnarfirði að sveitarfélagsmörkum við Garðabæ. Áætluð verklok stígagerðar í Hafnarfirði eru í september 2025.

 

Skrifað var undir verksamning við Garðasmíði ehf. í byrjun júní 2025 og mun Verkfræðistofa Reykjavíkur fara með eftirlit framkvæmda.  VSÓ Ráðgjöf sá um hönnun stíganna.  Verkefnið er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Kópavogsbæjar, Vegagerðarinnar og Betri samgangna.
 

Katrín Halldórsdóttir, forstöðumaður göngu- og hjólastíga hjá Betri samgöngum, og Aron Björn Arason frá Garðasmíði.
 
Stígarnir þrír eru hluti af stofnhjólaneti höfuðborgarsvæðisins og eru fjármagnaðir með Samgöngusáttmálanum. Samkvæmt sáttmálanum verða gerðir alls 100 km af göngu- og hjólastígum á gildistíma hans til ársins 2040 og nú þegar er búið að leggja um 20 km. 13% af fjárfestingum Samgöngusáttmálans, eða um 40 milljarðar króna, fara í göngu- og hjólastíga, undirgöng og brýr víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.
 

 

 
Í haust er stefnt á að bjóða út næsta áfanga verksins sem er fyrir aðskilda göngu- og hjólastíga frá sveitarfélagsmörkum Garðabæjar og Kópavogs að Kársneshálsi. Áætlað er að þær framkvæmdir hefjist svo vorið 2026.