Fréttir

SGS-Hjolastigar-StadaFramkv-2020-2033-130224

Stígandi í stígaframkvæmdum

Göngu- og hjólastíganet höfuðborgarsvæðisins stækkar um 3,3 kílómetra á árinu. Innifalið í því er brú við Grænugróf. Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir undirbúning ganga vel og er bjartsýn á að framkvæmdir hefjist með vorinu.

 

„Þegar er búið að leggja 9 km af nýjum stígum frá því að uppbygging göngu- og hjólastíganetsins á höfuðborgarsvæðinu hófst, eða 20% af fyrirhuguðum framkvæmdum. Stígakerfið auðveldar fólki að komast leiðar sinnar fótagangandi eða á hjóli, auk þess að tengja vel saman hverfi og sveitarfélög,“ segir Katrín, sem hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd Vegagerðarinnar. Um er að ræða stofnnet göngu- og hjólastíga sem heyra undir Samgöngusáttmálann og Vegagerðin heldur utan um í samstarfi við sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

 

„Almennt er fólk mjög jákvætt fyrir uppbyggingu stígakerfisins og kallað er eftir hraðari uppbyggingu þess,“ upplýsir Katrín og bætir við að aðskilnaður stíganna auki öryggi vegfarenda.

 

Stígar í Elliðaárdal og Fossvogi
„Í Reykjavík verður áfram unnið að því að leggja aðskilda göngu- og hjólastíga í Elliðaárdal, eða frá Grænugróf að Breiðholtsbraut. Við Grænugróf verður byggð ný brú yfir Elliðaárnar sem mun tengjast inn á stígakerfið. Þá er fyrirhugað að byggja nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu, sem er hluti Elliðaánna. Brúin yfir Dimmu er hluti af uppbyggingu nýs Arnarnesvegar og mun tengjast göngu- og hjólastígum sem eru partur af þeim framkvæmdum,“ segir Katrín.

 

Vestan Kringlumýrarbrautar, frá brúnni yfir Bústaðaveg að Suðurhlíð í Fossvogi, verða lagðir aðskildir göngu- og hjólastígar, sem Katrín telur að verði mikil samgöngubót. „Því til viðbótar verða lagðir aðskildir göngu- og hjólastígar frá undirgöngum við Litluhlíð að Miklubraut,“ greinir Katrín frá.

 

Hamraborg betur tengd
Í Kópavogi er fyrirhugað að leggja nýja hjólastíga eftir Ásbraut og Hábraut að Hamraborg. „Samhliða því verða lagðir aðskildir göngu- og hjólastígar vestan Hafnarfjarðarvegar suður með Kársneshálsi, frá Borgarholtsbraut að Kópavoginum. Við þetta má bæta að vinna við hönnun á aðskildum stígum við Kópavoginn, vestan Hafnarfjarðar að sveitarfélagsmörkum Garðabæjar, stendur yfir og framkvæmdir við þá stíga hefjast annað hvort á þessu ári eða því næsta,“ segir Katrín.

 

Hönnun á stígum í Garðabæ og Hafnarfirði
Einnig er unnið að hönnun á göngu- og hjólastígum í Garðabæ og Hafnarfirði. Verkefnin eru mislangt komin en áætlað að framkvæmdir hefjist á næstu misserum.

 

„Hönnun á stígum í Garðabæ stendur yfir. Verið er að hanna stíga norðan Arnarneshæðar, eða vestan Hafnarfjarðarvegar frá sveitarfélagsmörkum við Garðabæ að nýju undirgöngunum við Arnarnesveg. Sama á við um sunnanverða Arnarneshæð að Vífilstaðavegi og við Ásahverfi að Engidal. Þar verða aðskildir göngu- og hjólastígar vestan Hafnarfjarðarvegar, frá göngubrú yfir Hafnarfjarðarveg við Breiðás yfir í Engidal að sveitarfélagsmörkum við Hafnarfjörð,“ segir Katrín.

 

Í Norðurbænum í Hafnarfirði eru aðskildir göngu- og hjólastígar í hönnun, vestan Reykjavíkur sem ná frá Suðurvangi að sveitarfélagsmörkum við Garðabæ, að sögn Katrínar.

 

Grein birtist í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar; 1. tbl., 2024.