Fréttir

betri_samgongur_starfsfolk_portret_c-2

Þorsteinn R. Hermannsson ráðinn forstöðumaður samgangna

Þorsteinn R. Hermannsson hefur verið ráðinn forstöðumaður samgangna hjá Betri samgöngum ohf. til eins árs frá 1. september. Hans hlutverk verður að vera fyrirtækinu til ráðgjafar um samgöngumál, vinna að undirbúningi verkefna Samgöngusáttmálans og fylgja því eftir að markmið hans um greiðari samgöngur, fjölbreyttir ferðamátar og aukið umferðaröryggi náist í góðu samstarfi við Vegagerðina og sveitarfélögin. Samgöngusáttmálinn var undirritaður af ríkinu og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og er Betri samgöngum ætlað að hrinda honum í framkvæmd á næstu 13 árum með 120 milljarða króna fjárfestingu í öllum ferðamátum.

 

Hann hefur verið samgöngustjóri Reykjavíkurborgar frá 2016 og mun verða í leyfi þaðan á sama tíma. Þorsteinn vann hjá Mannviti og forverum þess frá útskrift sem sviðsstjóri umferðar- og skipulagssviðs og fagstjóri samgangna. Þá var hann verkfræðingur samgönguáætlunar í samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu frá 2010 til 2012. Hann lauk meistaragráðu í byggingarverkfræði með sérhæfingu í samgönguverkfræði frá University of Washington í Seattle árið 2005 og B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands.

 

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna:
„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá Betri samgöngum að fá jafn reyndan og öflugan samgönguverkfræðing til liðs við okkur eins og Þorsteinn er. Hann hefur verið einn fremsti samgönguverkfræðingur landsins um árabil. Þorsteinn mun verða lykilmaður í uppbyggingu okkar nýja fyrirtækis, sem mun stýra stærstu fjárfestingu í samgönguinnviðum sem um getur á Íslandi.“