Fréttir

vesturlandsvegur_mosfellingur_minni

Þriðja stofnvegaverkefninu lokið

Vígðir voru tveir áfangar af nýjum og endurbættum Vesturlandsvegi í gær. Verkið gekk mjög vel. Framkvæmdir við fyrsta áfanga hófust í lok maí 2020 og lauk í desember það sama ár. Seinni áfangi fór af stað í febrúar á þessu ári og lauk formlega við opnunina þann 8. desember. Í fyrri áfanga, sem náði frá Skarhólabraut að Langatanga, var akreinum fjölgað úr þremur í fjórar og þannig komið í veg fyrir umferðarteppur sem oft mynduðust við Lágafellskirkju. Í seinni áfanganum, sem náði frá Langatanga að Reykjavegi, voru fjórar akreinar fyrir en þörf á endurbyggingu vegarins. Stærsta breytingin er sú að akstursstefnur eru nú aðskildar með vegriði á allri leiðinni sem stóreykur umferðaröryggi á veginum.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar, klipptu á borða á nýrri afrein að Krikahverfi og mörkuðu þannig formlega opnun vegarins.

 

„Það er ánægjulegt að þremur stofnvegaverkefnum Samgöngusáttmálans sé nú að fullu lokið. Þessi nýi og betri kafli Vesturlandsvegar bætir öryggi allra vegfarenda til muna,“ sagði Davíð Þorláksson við þetta tækifæri.