Fréttir

Uppfærð tímalína

Tímalína Borgarlínunnar aðlöguð að breyttum aðstæðum

Í haust hefjast fyrstu framkvæmdir vegna Borgarlínunnar þegar byrjað verður á landfyllingu fyrir nýja Fossvogsbrú en gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin í lok árs 2024. Undanfarið hafa tímaáætlanir framkvæmda vegna fyrstu lotu Borgarlínunnar verið til endurskoðunar hjá Verkefnastofu Borgarlínunnar. Nokkur veigamikil atriði hafa áhrif þar á.

Verkefnið er tæknilega flókið og þarf að stilla ýmsa þætti þess saman með öðrum verkefnum Samgöngusáttmálans sem fram undan eru eða eru þegar hafin. Þá hafa COVID-19 faraldurinn og stríðið í Úkraínu haft áhrif á virðiskeðjur.

Uppfærðar áætlanir miða við að framkvæmdalok fyrstu lotu verði tvískipt og að leggurinn Hamraborg – Miðbær verði tilbúinn árið 2026 og leggurinn Ártúnshöfði – Miðbær verði tilbúinn 2027.

Undirbúningur við aðrar lotur Borgarlínunnar er að hefjast og mun sú vinna standa yfir fram á næsta ár. Fyrsta lota Borgarlínunnar er sú lengsta, eða um 14,5 km. Aðrar lotur eru styttri og þær munu vinnast samhliða lotu eitt.

Líkt og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir munu vagnar Borgarlínunnar hefja akstur árið 2025 á akstursleiðinni Hamraborg – HÍ.