Vinna við landfyllingar og sjóvarnir fyrir Öldu, Fossvogsbrú, eru að hefjast Reykjavíkurmegin en framkvæmdir hófust á Kársnesi í Kópavogi 17. janúar síðastliðinn. Leitast er við að framkvæmdir valdi sem minnstum truflunum en til að tryggja að góða miðlun upplýsinga um áhrif framkvæmdanna og eðli þeirra hefur verið opnuð sérstök vefsíða: Framkvæmdir fyrir Fossvogsbrú
Þá er verið að setja upp framkvæmda- og upplýsingaskilti á nokkrum stöðum við framkvæmdasvæðið Reykjavíkurmegin sem og í Kópavogi.
Áhrif á landi:
- Greiðfært verður um hjóla- og gönguleiðir við flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar allan framkvæmdatímann. Þvera þarf stígana á einum stað fyrir umferð vinnutækja en þeir verða aldrei lokaðir.
- Náin samvinna er við Isavia vegna nálægðar við flugvöllinn.
Áhrif í sjó:
- Vinnusvæði verða sérstaklega girt af og merkt með baujum. Öll umferð fyrir innan þær er stranglega bönnuð.
- Siglingaklúbbar og baðgestir geta að öðru leyti athafnað sig í Fossvoginum samkvæmt venju.
Fossvogsbrú verður 270 m löng og allt að 17 m breið. Hún tengir saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavík. Brúin er ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum, auk forgangsakstri lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs.
Áætluð verklok fyrir landfyllingar og sjóvarnir eru 1. nóvember 2026. Útboð fyrir sjálfa brúarsmíðina verður auglýst í maí og gert er ráð fyrir að brúin verði tilbúin til notkunar haustið 2028. Fossvogsbrú er ein af fjölmörgum fjárfestingum Samgöngusáttmálans.
Frekari upplýsingar um framkvæmdir Samgöngusáttmálans má finna í upplýsingagáttinni: Verksjá.is