Betri samgöngur hafa auglýst eftir tilboðum í fyrri áfanga verkefnisins „Þrír stígar“ og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í Garðabæ og Hafnarfirði í sumar náist samningar við verktaka.
Verkið snýst um gerð aðskildra göngu- og hjólastíga ásamt stígalýsingu, nýjum skiltum og merkingum á þremur framkvæmdarsvæðum.
Framkvæmdakaflinn í Hafnarfirði liggur meðfram Reykjavíkurvegi og nær frá Suðurvangi að Glitvangi við sveitarfélagsmörkin við Garðabæ.
Í Garðabæ verða stígar lagðir meðfram Hafnarfjarðarvegi og haldið verður áfram með aðskilda stíga norðan við undirgöng Arnarneshæðar að sveitarfélagsmörkum í Kópavogi og sunnan við undirgöng við Arnarneshæðina suður að Vífilsstaðavegi. Þar verður jafnframt gerð ný brú fyrir hjólandi vegfarendur yfir lækinn sunnan við Hegranes.
Hluti framkvæmdarinnar er að þvera gatnamót Hjallabrautar og Reykjavíkurvegar þar sem upphækkun verður gerð á framhjáhlaup ásamt endurhönnun miðeyja. Einnig skal ganga að fullu frá hjólabrú yfir Arnarneslæk, brúin kemur samsett en ganga þarf frá brúarhandriðum og stólpum á brúnna og festa brúnna við undirstöður. Hluti heildarframkvæmdarinnar felst í landmótun og frágangi gróðursvæða, gerð nýs áningarstaðar í Hafnarfirði og færslu á götugögnum s.s, ljósum, skiltum og bekkjum ásamt stígalýsingu. Smíði brúar yfir Arnarneslæk ásamt samsetningu hennar er ekki hluti þessa útboðs.
Fjárfestingar Samgöngusáttmálans
Verkefnið er hluti af Samgöngusáttmálanum en 13% af fjárfestingum sáttmálans, eða um 40 milljarðar króna, fara í göngu- og hjólastíga, undirgöng og brýr víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar er búið að leggja um 20 km af stígum en áætlað er að þeir verði alls 100 km.
Nánari upplýsingar um útboðið má nálgast á útboðsvefnum:
Þrír stígar – útboð Betri samgangna
Tengdar fréttir:
Ný göngubrú fyrir Sæbraut
Nýr stígur í Suðurhlíðum opnaður