Fréttir

betri_samgongur_nasa_salur-1

Vel sótt málþing um samgöngur og sjálfbært skipulag

Um 250 manns sóttu málþing Betri samgangna um samgöngur, sjálfbært skipulag og reynslu annarra borgarsvæða í Sjálfstæðissalnum á Parliament hótelinu í gær.

 

Frummælendur og umfjöllunarefni
Maria Vassilakou var varaborgarstjóri í Vínarborg frá 2010 til 2019 og fór fyrir málaflokkum skipulags, samgangna, loftslags, orku og íbúalýðræðis. Brent Toderian, skipulagsfræðingur og borgarþróunarráðgjafi, hefur starfað að borgarþróun í yfir þrjá áratugi víða um heim og var m.a. skipulagstjóri í Vancouver frá 2006-2012.

 

Í erindi sínu fjallaði Maria m.a. um umbreytingarverkefni síðasta áratugar í Vínarborg, hvaða áherslur eru í skipulagi byggðar og samgangna í nýjum og eldri hverfum borgarinnar og ræddi hvers vegna Vínarborg er gjarnan á toppi lista yfir lífvænlegustu borgir heims.

 

Brent fjallaði m.a. um nauðsyn þess að þétta byggð í borgum með vönduðum hætti, mikilvægi gróðurs í byggðu umhverfi og hvernig endurskipuleggja þarf samgöngur í borgum þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á umferð einkabíla í skipulagi. Hann vísaði í erindi sínu til dæma frá Kanada og Norðurlöndunum auk þess að fjalla um hvað betur mætti fara í Reykjavík.

 

Í kjölfar erinda gafst gestum í sal kostur á að spyrja frummælendur spurningar. Málþingið var tekið upp og verða upptökur af því birtar á heimasíðu Betri samgangna.

 

Samkeppni um þróun Keldnalands
Brent Toderian og Maria Vassilakou eru hér þessa dagana við dómnefndarstörf vegna samkeppni Betri samgangna og Reykjavíkurborgar um þróun Keldnalands. Við skipan dómnefndarinnar var ákveðið að leita eftir þátttöku erlendra sérfræðinga sem hafa reynslu af sambærilegum verkefnum, umbreytingu samgangna og borgarsvæða í lífvænlegum borgum austan og vestan hafs. Úr varð að Brent og Maria tóku sæti í dómnefnd ásamt innlendum aðilum. Stefnt er á að tilkynna niðurstöður samkeppninnar í september.