Fréttir

Untitled design (1)

Verkefni Samgöngusáttmálans rædd á Seltjarnarnesi

Íbúar á öllu höfuðborgarsvæðinu eiga hagsmuna að gæta þegar kemur að samgönguúrbótum og þá ekki síst greiðfærari stofnvegum og almenningssamgöngum. Sameiginlegt atvinnu- og samgöngusvæði þýðir að íbúar á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík glíma við sömu áskoranir í umferðinni. Betri samgöngur og Vegagerðin í samvinnu við Seltjarnarnesbæ efndu á dögunum til kynningarfundar á bókasafninu á Eiðistorgi um framkvæmdir Samgöngusáttmálans.
 
Mesta fjárfestingin í stofnvegum
Á fundinum var farið yfir þær fjölbreyttu samgönguframkvæmdir sem ráðist verður í á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040. Stofnvegaframkvæmdir eru stærsti fjárfestingaliður Samgöngusáttmálans eða 130,7 milljarðar króna. Þremur framkvæmdum er þegar lokið, fjölgun akreina á köflum Vesturlandsvegar, Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar. Framkvæmdir standa yfir við nýjan Arnarnesveg sem tengir Rjúpnahæð í Kópavogi við Breiðholtsbraut en þær hófust í ágúst 2023. Að sögn Bryndísar Friðriksdóttur, svæðisstjóra Höfuðborgarsvæðis hjá Vegagerðinni, miðar verkinu vel og verður að fullu lokið í nóvember á næsta ári. Þá eru fimm aðrar stofnvegaaframkvæmdir í undirbúningi, þar á meðal Miklubrautargöng, Sæbrautarstokkur og úrbætur á gatnamótum Reykjanesbrautar við Bústaðaveg.
 

 

Af hverju Borgarlínan?
Íbúum á Seltjarnarnesi gafst tækifæri til að spyrja út í einstaka framkvæmdir, tíma- og kostnaðaráætlanir og koma á framfæri athugasemdum og ábendingum. Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, tók undir mikilvægi þess að íbúar kynntu sér verkefni Samgöngusáttmálans og tækju virkan þátt í umræðunni. Borgarlínan er annar stærsti liður sáttmálans en áætlaður kostnaður við hana er 130,4 milljarðar króna. Atli Björn Levy, forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar, fór yfir hvað Borgarlínan er, af hverju sé þörf fyrir hana og á hvaða hátt hún er frábrugðin Strætó. Rannsóknir og reynsla nágrannaþjóða okkar sýna að hágæða almenningssamgöngur eru lykilatriði í að mæta þeirri gríðarlega öru fjölgun íbúa og bíla sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu.
 

 

 
100 km af hjóla- og göngustígum

Í uppfærðum Samgöngusáttmála var ákveðið að auka verulega uppbyggingu hjóla- og göngustíga og hún er nú 13% af öllum fjárfestingum sáttmálans eða um 40 milljarðar króna. Lagðir verða 80 km af stígum til viðbótar við þá 20 km sem þegar er búið að gera. Undirgöng og brýr fyrir hjólandi og gangandi umferð eru hluti af þessum verkefnum. Fram kom í máli Katrínar Halldórsdóttur, forstöðumanns göngu- og hjólastíga hjá Betri samgöngum, að mikil fjölgun hefur orðið í hópi þeirra sem hjóla til vinnu og í skóla allt árið um kring. Samkvæmt teljara á Eiðsgranda sem eingöngu telur reiðhjól, ekki rafskútur eða gangandi, mældust um 3800 ferðir í janúar 2025 en á sumrin hefur fjöldi ferða farið í allt að 19 þúsund í einum mánuði.

 


 


Allar helstu upplýsingar um stöðu framkvæmda Samgöngusáttmálans má finna í nýrri upplýsingagátt:

Verksjá.is