Fréttir

Evrópsk samgönguvika 2025

Viðburðarík samgönguvika framundan

Samgöngur fyrir öll er þema Evrópsku samgönguvikunnar sem hefst á morgun 16. september en frá árinu 2002 hafa sveitarfélög á Íslandi hafa tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu til að ýta undir sjálfsbærar samgöngur. Fjölmargir viðburðir verða haldnir, þar á meðal spennandi málþing í Ráðhúsinu í Reykjavík á fimmtudag, Auðlindahringur verður hjólaður frá Elliðaárstöð og svokallað Aðgengisstroll haldið á Akureyri.
 

Markmið samgönguviku er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru vistvænir, hagkvæmir og heilsustyrkjandi auk þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. Í ár er lögð sérstök áhersla á að skapa aðgengilegt og öruggt samfélag fyrir alla, óháð hreyfigetu. Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið hefur umsjón með Evrópsku samgönguvikunni hér á landi og nálgast má helstu upplýsingar á Facebook síðu vikunnar.
 
Fróðlegt málþing
Reykjavíkurborg, Betri samgöngur, Vegagerðin og Strætó BS standa fyrir áhugaverðu málþingi um ýmsar og óvæntar hliðar samgangna eins og sjá má á dagskránni:
 

  • Nýtt leiðakerfi og þjónustuaukning Strætó
  • Borgarlínustöðvar og aðgengi
  • Nýtt leiðakerfi landsbyggðarvagna og nýjungar
  • Gönguvæn borg og borgarhönnunarstefnan
  • Hjólreiðaborgin Reykjavík – myndband
  • Drög að stefnu stjórnvalda um virka vegfarendur
  • Aðgengi fyrir alla
  • Öryggisatriði og bætt flæði almenningssamgangna
  • Bylting fyrir blinda- og sjónskerta
  • Áhrif samgöngustyrkja og aðgengilegra bílastæða á ferðavenjur fólks

 
Málþingið verður haldið í Tjarnarsal Ráðhússins fimmtudaginn 18. september frá 9:00-11:00 en salurinn opnar klukkan 8:30 með kaffi og kleinum. Viðburður á Facebook
 

Rafveituhringur og Aðgengisstroll
Fleiri viðburðir verða haldnir á vegum félagasamtaka, fyrirtækja og sveitarfélaga í samgönguviku. Aðal viðburðurinn á Akureyri verður svokallað Aðgengisstroll á miðvikudag sem bærinn heldur í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár. Aðgengisstrollinu er ætlað að vekja athygli á aðgengismálum og mikilvægi þess að allir geti farið leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Nánari upplýsingar hér.
 
Þá verður Auðlindahringur hjólaður í fimmtánda sinn frá Eilliðaárstöð í Reykjavík miðvikudaginn 17. september. Um er að ræða 25 km hjólahring þar sem skoðuð verða mannvirki í flutningi og dreifingu rafmagns. Áhugasöm geta nálgast nánari upplýsingar hér.
 
Samgönguvikan endar svo á Bíllausa deginum mánudaginn 22. september þegar almenningur er hvattur til að skilja bílinn eftir heima og til að auðvelda það verður frítt í landsbyggðarstrætó og í strætó á höfuðborgarsvæðinu.