Ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu 26. september 2019. Ákveðið var að framkvæmdirnar yrðu í höndum fyrirtækis sem yrði stofnað í kringum þær.
Ríkið og sveitarfélögin leggja til þrjá milljarða á ári og fyrirtækinu er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur. Annars vegar með þróun Keldnalandsins, sem ríkið leggur fyrirtækinu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á.
Hinn 29. júní sl. voru lög nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Með þeim fékk fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að stofna fyrirtækið. Betri samgöngur ohf. var stofnað 2. október það ár.
Ráðist var í uppfærslu sáttmálans árið 2023 vegna aukins umfangs og mikilla almennra kostnaðarhækkana. Að fenginni reynslu voru kostnaðaráætlanir endurskoðaðar og gildistími sáttmálans lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun. Kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðinss sem var undirritaður 21.ágúst 2024 er styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega.