Fréttir

Undirritun 2

Samstarf um uppbyggingu Keldnalands og Keldnaholts og flýtingu tveggja Borgarlínuleiða

Betri samgöngur og Reykjavíkurborg undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf vegna þróunar og uppbyggingar Keldnalands og Keldnaholts og flýtingu uppbyggingar innviða tveggja Borgarlínuleiða.

 

Viljayfirlýsingin tekur til samstarfs um þrjá þætti:
– Að efna til samkeppni um þróun Keldnalands og Keldnaholts.-
– Að flýta uppbyggingu innviða tveggja Borgarlínuleiða, annars vegar frá Krossamýrartorgi að Keldnaholti og hins vegar frá Vogabyggð í Efra Breiðholt.
– Að vinna að samkomulagi um uppbyggingu þar sem fram kemur hvar eignarhald á landi og mannvirkjum verður til framtíðar og hver sér um framkvæmdir og kostnað á götum, leikskólum, skólum og öðrum innviðum.

 

Byggt á samgöngusáttmála og lífskjarasamningum

Viljayfirlýsingin byggir á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið undirrituðu í september árið 2019. Þá var ein af forsendum lífskjarasamninganna sem undirritaðir voru í apríl 2019 að ríkið og Reykjavíkurborg kæmust að samkomulagi um að hefja skipulagningu Keldnalands og Keldnaholts.

Forsenda uppbyggingar á svæðinu er að Borgarlína tengi það áður en íbúar flytja inn og segja má að fyrirhuguð byggð verði fyrsta hreina Borgarlínu-hverfið í sögu borgarinnar. Til að gera það að veruleika hafa aðilar náð saman um að flýta framkvæmdum við innviði fyrir Borgarlínu til Keldna og fyrir Efra- Breiðholt. Hvort tveggja mun styrkja farþegagrunn Borgarlínu verulega til framtíðar.

 

Niðurstöður samkeppni liggi fyrir í desember á þessu ári

Þróun á Keldnalandi og Keldnaholti miðast við ákvæði aðalskipulags um blandaða íbúðabyggð og atvinnustarfsemi á svæðinu til framtíðar. Óskað verður eftir aðkomu Arkitektafélags Íslands og Félags íslenskra landslagsarkitekta að samkeppni um rammaskipulag reitsins, sem skal vera á milli þverfaglegra teyma. Þátttakendur skili með tillögum sínum meðal annars ítarlegum upplýsingum um skipulag samgangna innan hverfis, að því og frá, ásamt mati á áhrifum skipulagstillögunnar á bílaumferð á stofn- og tengibrautum, umferð hjólandi og farþegafjölda Borgarlínu og strætisvagnaleiða. Miða skal við að samkeppnisgögn verði tilbúin í ágúst og að dómnefnd ljúki störfum í desember 2022.

Ófrávíkjanleg forsenda fyrir framangreindum breytingum á undirbúnings- og framkvæmdatíma Borgarlínu er að breytingarnar verði ekki til þess að þeim framkvæmdum sem nú eru í fyrsta áfanga Borgarlínu seinki og að þær framkvæmdir sem nú er verið að undirbúa í fyrsta áfanga Borgarlínu verði ávallt í forgangi.

 

Viljayfirlýsing í heild sinni.